Sport

Keflavík Norðurlandameistari

"Þetta byrjaði fremur illa en það var góður stígandi í liðinu og við náðum að hampa þessum titli," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari körfuknattleiksliðs Keflavíkur sem í gær gerði sér lítið fyrir og sigraði Norðurlandamótið í körfubolta. Er óhætt að fullyrða að sjaldan eða aldrei fyrr hefur íslenskt körfuboltalið náð jafngóðum árangri á erlendri grund. Sigruðu Keflvíkingar finnsku meistarana Kouvot í úrslitaleiknum 109 - 89. Sigurður var lítillátur þegar Fréttablaðið náði tali af honum eftir að úrslitaleiknum lauk. "Þetta var flott enda eru bæði finnsku og sænsku körfuboltadeildirnar almennt taldar betri en deildin heima. Það sýnir kannski einna best að andstæðingar okkar voru engir aukvisar. Allir í liðinu voru að spila góðan leik og það er ómögulegt að taka einstaka leikmenn út. Þetta var samvinna og liðið toppaði á háréttum punkti. Það tryggði þennan sigur." Bestu lið Noregs, Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í keppninni auk Keflavíkur en dönsku meistararnir gátu ekki tekið þátt að þessu sinni. Sigurinn er enn sætari fyrir þær sakir að Keflavík tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu og mega í raun teljast heppnir að hafa komist alla leið í úrslit. Sigurður segir að þrátt fyrir þetta afrek sé ekki um það að ræða að slaka neitt á enda sé nóg af verkefnum framundan og lítið þýði að dvelja lengi yfir þessum titli. Hann vill heldur ekki taka neinn einstakan leikmann út fyrir góða frammistöðu en Anthony Glover, hinn nýi leikmaður liðsins, var valinn leikmaður mótsins. Hann skoraði 32 stig í úrslitaleiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×