Sport

Menn börðust fyrir hvern annan

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari KA, var kampakátur með frammistöðu sinna manna eins gefur að skilja. "Við höfum ekkert heyrt af umræðunni fyrir leikinn - ekkert tekið eftir henni enda fáum við ekki blöðin send norður," segir sá gamli léttur í bragði og bætti við: "Við létum ekkert trufla okkur í undirbúningnum fyrir leikinn og mætum býsna afslappaðir hingað. Við náðum að skora eitt mark og höfðum síðan lukkudísirnar á bandi okkar í restina. Það er hins vegar ekkert hægt að neita því að þeir áttu mörg góð færi en við áttum nokkur helvíti góð hálffæri. Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik, við vissum síðan vel að þeir myndu koma á okkur af krafti í byrjun síðari hálfleiks, en við náðum að halda okkar. Þetta er í raun í fyrsta sinn í sumar sem heppnin var aðeins með okkur. Vörnin var mjög góð hjá okkur sem og markvarslan og menn börðust virkilega fyrir hvern annan og áttum þennan sigur skilið. Það er alltaf draumur að komast í bikarúrslitin hvort sem þú fellur eða heldur þér uppi. Því er ekki að neita að það var mikið svekkelsi að falla um síðustu helgi en það er enginn heimsendir - það var enginn að deyja og við féllum bara um eina deild og það þýðir voða lítið að gráta það. Nú er einn leikur eftir af tímabilinu hjá okkur og við ætlum okkur sigur í honum," sagði Þorvaldur Örlygsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×