Sport

FH-ingar úr leik

KA-menn komust rétt í þessu í úrslit Visa-bikarkeppninnar með óvæntum eins marks sigri á nýkrýndum Íslandsmeisturum FH. Hreinn Hringsson skoraði eina mark leiksins á 31. mínútu eftir slæm mistök Heimis Guðjónssonar, fyrirliða FH. FH-ingar höfðu undirtökin lengst af í leiknum, eins og við var að búast, en Norðanmenn lágu aftarlega og beittu skyndisóknum, dyggilega studdir áfram af þeim örfáaum áhangendum sem fylgdu liðinu í suður yfir heiðar. Leikurinn var nokkuð opinn og fjörugur og fyrsta dauðafæri leit dagsins ljós um miðjan hálfleikinn er miðjumaðurinn Ásgeir Ásgeirsson, sem skoraði sigurmark FH gegn KA í síðustu umferð Íslandsmótsins um síðustu helgi, stakk vörn KA af en skaut framhjá er hann var kominn einn gegn Sandor Matus markverði. Strax í næstu sókn refsuðu KA-menn FH-ingum. Ekki virtist vera mikil hætta á ferðum er Heimir Guðjónsson var að dóla með boltann inni á miðjusvæðinu en hann átti hins vegar afleita sendingu aftur á Tommy Nielsen sem Hreinn Hringsson komst inn í. Hreinn óð upp völlinn og lagði boltann framhjá Daða Lárussyni, í stöng og inn, einstaklega vel gert. Eftir markið lágu KA-menn aftarlega og eftirlétu FH-ingum að vera með boltann. Sóknarþungi Hafnfirðinga jókst jafnt og þétt og fékk Atli Viðar Björnsson tvö góð færi; í fyrri skiptið varði Sandor en í það seinna vr bjargað. Síðasta færi FH-inga leit svo dagsins ljós undir blálokin er varamaðurinn Ármann Smári Björnsson átt skot í slá. Niðurstaðan því norðlenskur varnarsigur og mæta KA-menn annaðhvort HK eða Keflavík í úrslitum bikarsins, en þau eigast við á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×