Sport

MacCullogh hættur í NBA

Todd MacCulloch, leikmaður Philadelphia 76ers í NBA, tilkynnti nýlega að hann væri hættur í körfuboltanum. MacCulloch er kanadískur að uppruna og lék þrjú tímabil með Sixers og eitt með New Jersey Nets. Hann greindist með dularfullan hrörnunarsjúkdóm fyrir rúmu ári og hefur ekki leikið körfubolta síðan. MacCulloch gekkst undir skurðaðgerð í byrjun þessa árs til að freista þess að ná sér að nýju en náði engum bata og ákvað því að láta gott heita. "Maður getur ekki spáð fyrir svona löguðu en því miður ráðum við ekki alltaf örlögum okkar," sagði MacCulloch. Kraftar hins unga MacCulloch hafa nýst Sixers vel á útvarpsstöð liðsins því þar hefur hann skotið niður kollinum og tekið þátt í að lýsa leikjum. Þykja lýsingar hans með skemmtilegra móti og leikskilningur hans hlustendum dýrmætur lærdómur. Todd MacCulloch var valinn í seinni umferð háskólavalsins árið 1999 af Philadelphia 76ers. Eftir tvö ár með Sixers gerði hann sex ára samning við New Jersey Nets en endaði aftur í röðum Sixers þegar honum var skipt ásamt Keith Van Horn fyrir Dikembe Mutombo. MacCulloch skoraði 6,1 stig að meðaltali í leik og tók 4 fráköst. Hann lék í tvígang til úrslita um NBA-titilinn en beið lægri hlut fyrir Los Angeles Lakers í bæði skiptin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×