Innlent

Sólveig segir traust enn ríkja

Traust Íslendinga til bandamanna sinna og upplýsinga þeirra um forsendur Íraksstríðsins er ennþá til staðar, segir Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar. Hún segir það áhyggjuefni hafi forsætisráðherra borist upplýsingar sem gefi ástæðu til að ætla þær upplýsingar rangar. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði í viðtali við Stöð 2 fyrir helgi, að Íslendingar hefðu ekki fengið réttar upplýsingar í aðdraganda Íraksstríðsins. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, krafðist þess í kjölfarið að utanríkismálanefnd fundaði um málið til að fara efnislega yfir aðdraganda stríðsins, meta lögmæti þess og skoða hvernig á því stóð að Ísland lenti á lista hinna staðföstu þjóða. Sólveig Pétursdóttir er formaður nefndarinnar og segir hún að þetta sé erfitt mál. Hins vegar hafi þessi ákvörðun verið tekin af hérlendum stjórnvöldum á grundvelli trausts til bandamanna sinna og það traust sé enn til staðar. Sem fyrr verði gangur mála í Írak afram skoðaður gaumgæfilega og málið verði rætt í utanríkismálanefnd. Hún segist ekki geta metið það hvort breytingar hafi orðið á þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar stríðsins, en auðvitað sé það áhyggjuefni ef forsætisráðherra hafi fengið vísbendingar um að upplýsingarnar hafi verið rangar. Hún hafi hins vegar engar forsendur til þess að koma með nýjar yfirlýsingar í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×