Erlent

Leitaði að vopnum en fann lík

Austurrískur blaðamaður sem fékk upplýsingar um að vopn væru geymd í skóginum við Vín fann engin vopn heldur lík af konu sem hafði látist eftir að handsprengja hafði sprungið. Líkfundurinn kom í framhaldi af frétt sem blaðamaðurinn skrifaði fyrr í mánuðinum í tímaritið News. Þá hafði huldumaður komið þeim upplýsingum til blaðamannsins að vopn væru í skóginum. Í kjölfarið fann blaðamaðurinn handsprengjur, vélbyssur, sprengiefni og fleiri vopn og skrifaði um það frétt. Eftir að sú frétt birtist fékk hann aðra ábendingu um að vopn væru á öðrum stað í skóginum. Þá fór hann á staðinn ásamt fulltrúa stjórnvalda og fann líkið. Grunur leikur á að konan sem fannst látin hafi verið manneskjan sem hafði samband við blaðamanninn. Það hefur þó ekki verið staðfest. Blaðamaðurinn segir að heimildarmaðurinn hafi líklega verið Bosníu-Serbi. Í frétt tímaritsins fyrr í mánuðinum var sagt að líklega hefðu Bosníu-Serbar komið vopnunum fyrir í skóginum fyrir áratug síðan af ótta við að stríðið á Balkanskaga myndi teygja anga sína til Austurríkis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×