Erlent

Hundrað manns létust á Haítí

Um hundrað manns létust og 150 eru saknað eftir að fellibylurinn Jeanne gekk yfir Haítí um helgina. Jeanne hafði áður kostað nokkra lífið í Dóminíska lýðveldinu og Púertó Ríkó. Borgin Gonaives, sem stendur við ströndina í norðurhluta Haíti, fór næstum öll undir vatn. Á sumum svæðum náði vatnið fjögurra metra hæð, götur borgarinnar voru líkari ám og þurfti fólk að fara upp á húsþök til að forðast flóðið. Tæplega fimmtugur kennari í borginni sagði ástandið hræðilegt í viðtali við fréttamenn. Hann sagðist hafa horft á eftir nágrönnum sínum, konu og tveimur börnum hennar, hverfa í vatnsflauminn. Gerard Latortue, forsætisráðherra landsins, segir árið hafa verið hræðilegt. Fyrir aðeins fjórum mánuðum hafi um þrjú þúsund manns látist í miklum flóðum á Haítí og í Dóminíska lýðveldinu. Latortue segir ekki enn ljóst hversu margir hafi látist um helgina. Að minnsta kosti níutíu manns séu látnir en líklega hafi fleiri orðið fellibylnum að bráð. Jeanne er núna úti í Karabíska hafinu og ekki er nákvæmlega ljóst í hvaða átt hann stefnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×