Sport

Skagamenn mæta Hammarby

Skagamenn mæta sænska liðinu Hammarby ytra í Evrópukeppni félagsliða í kvöld klukkan 18.45 að íslenskum tíma. Í síðustu umferð slógu Skagamenn út eistneska liðið TVMK Tallin, sigruðu í báðum leikjunum, 4-2 hér heima og 1-2 ytra. Góður árangur það. Búast má við að róðurinn verði öllu þyngri gegn Hammarby en með liðinu leikur einmitt íslenski landsliðsmaðurinn Pétur Hafliði Marteinsson. Það er á öllu von þegar Skagamenn eru annars vegar, það er að segja, eins og liðið hefur spilað í sumar. Því var spáð mjög góðu gengi fyrir mót en leikur liðsins hefur verið frekar sveiflukenndur og ekki alveg í takt við væntingar. Til að mynda var ÍA slegið út úr 32-liða úrslitum bikarkeppninnar af 1. deildarliði HK og nýlega fékk liðið stóran skell, 0-4, á heimavelli gegn þáverandi botnliði Framara. Á hinn bóginn svöruðu þeir ansi vel fyrir sig í næsta deildarleik, tóku níu marka sveiflu, en þá burstuðu þeir KA á Akureyri, 5-0. Liðið hefur sýnt fínan bolta í Evrópukeppninni og það er staðreynd að Skagamenn eru yfirleitt sterkastir í stærstu leikjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×