Sport

Strákarnir unnu stórsigur á Finnum

Íslensku strákarnir í 16 ára landsliðinu eru að standa sig vel í Evrópukeppni 16 ára liða en íslenska liðið tekur nú þátt í b-deildinni sem fram fer í Brighton á Englandi. Íslenska liðið vann stórsigur á Finnum, 71-53, í fimmta leik sínum á mótinu í gær og hefur unnið fjóra af fimm leikjum sínum til þessa. Í kvöld mæta strákarnir gríðarlega sterku liði Makedóníu sem er ósigrað á mótinu. Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið sem lenti 10-17 undir í fyrsta leikhluta. Eftir það fóru strákarnir að spila frábæran bolta og leiddu í hálfleik, 45-33. Finnar reyndu nokkrar leikaðferðir í síðari hálfleik en það var sama hvað þeir reyndu, okkar strákar áttu svör við öllu. Íslenska liðið átti stórleik í gær og allir léku vel að þessu sinni. Hittnin fyrir utan var góð megnið af leiknum og var gott jafnvægi í sóknarleiknum. Enn sem fyrr spiluðu strákarnir góða vörn og hefur vörnin verið aðall liðsins hingað til í mótinu. Njarðvíkingurinn Hjörtur Hrafn Einarsson var stigahæstur með 23 stig, Hörður Axel Vilhjálmssson var með 18 stig og 8 stoðsendingar og Brynjar Þór Björnsson var með 14 stig en hann er stigahæsti leikmaður íslenska liðsins á mótinu. Íslenska liðið er sem fyrr í öðru sæti í mótinu en þjálfari þess er Benedikt Guðmundsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×