Sport

Þórarinn með stórleik

Í annað sinn á nokkrum dögum báru Keflvíkingar sigurorð af Fylkismönnum. Fyrst var það 0-1 í bikarkeppninni á Árbæjarvelli og svo síðdegis í gær á Keflavíkurvelli en að þessu sinni í Landsbankadeildinni og lokatölur urðu 4-2. Leikurinn var í það heila ágætis skemmtun og spilamennska liðanna miklu betri en í bikarleiknum þar sem ragmennskan í sóknarleiknum reið ekki við einteyming. Í sjálfu sér skildi ekki svo mikið á milli liðanna lengstum þótt reyndar hefðu sóknarlotur heimamanna verið mun beittari. Það sem skipti sköpum fyrir Keflvíkinga var frábær spilamennska Þórarins Kristjánssonar en piltur skoraði tvö mörk upp á eigin spýtur og lagði síðan upp eitt annað. Hann lék varnarmenn Fylkis grátt hvað eftir annað og virkar í feiknaformi. Hann var enda sáttur þegar Fréttablaðið náði tali af honum eftir leik: "Þetta gekk mjög vel hjá okkur og við vorum allir á tánum. Spilamennska okkar í leiknum minnti á byrjun mótsins og það er engin spurning að okkur hentar betur að láta boltann ganga, keyra á skyndisóknirnar og nýta vængina. Þannig eigum að við að spila - ekki vera í þessum kýlingum. Þrátt fyrir þessa tvo sigra gegn Fylki ofmetnumst við ekkert enda vitum við vel að það þarf ekki mikið til að missa taktinn," sagði Þórarinn. En setti brotthvarf Ólafs Gottskálkssonar úr herbúðum Keflvíkinga eitthvað strik í reikninginn fyrir þá í undirbúningi þeirra fyrir leikinn? "Þetta gerðist bara í gær og við fengum í sjálfu sér engan tíma til að pæla neitt í því fyrir leikinn enda hefði það líklega ekkert verið skynsamlegt. Við ræðum þetta eflaust betur á morgun en nú er bara að njóta sigursins." Vonir Fylkismanna á bikartitli eru úr sögunni, það sáu Keflvíkingar um. Vonir Fylkismanna á Íslandsmeistaratitlinum eru orðnar hverfandi en um það hafa þeir sjálfir séð. Döpur spilamennska liðsins að undanförnu rennir stoðum undir skoðanir margra knattspyrnuáhugamanna að velgengni þeirra framan af móti hafi að mestu leyti byggst á heppni. Fylkismenn, tíminn er að renna út. Keflavík-Fylkir 4-2 1-0 Þórarinn Kristjánsson, víti (25.), 1-1 Guðni Rúnar Helgason (27.), 2-1 Haraldur Guðmundsson (45.), 3-1 Þórarinn Kristjánsson (63.), 4-1 Hörður Sveinsson (75.), 4-2 Eyjólfur Héðinsson (78.).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×