Sport

Markalaust í Krikanum

FH-ingar misstu af gullnu tækifæri til að auka forystu sína á toppi Landsbankadeildarinnar í gær þegar þeir tóku á móti Víkingum. FH-liðið sem hefur verið á miklu skriði að undaförnu náði sér aldrei á strik í leiknum gegn vel skipulögðu Víkingsliði og endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Það brá fyrir ágætis samleiksköflum hjá báðum liðum í fyrri hálfleik en leikmönnum liðanna virtust allar bjargir bannaðar þegar upp að vítateignum var komið. Danski varnarmaðurinn Tommy Nielsen átti hættulegasta færi hálfleiksins en skalli hans eftir hornspyrnu var varinn á línu. Bæði lið fengu síðan tækifæri til að skora í síðari hálfleik. Víkingurinn Jermaine Palmer fékk dauðafæri á 64. mínútu en var alltof lengi að athafna sig og missti boltann og hinum megin fengu Guðmundur Sævarsson og Allan Borgvardt mjög góð færi sem fóru bæði forgörðum. FH-ingar pressuðu stíft á lokamínútum en Víkingar voru þéttir fyrir og tryggðu sér eitt dýrmætt stig. Það er erfitt fyrir FH-liðið að halda því flugi sem það hefur verið á undanförnu leik eftir leik. Liðið náði sér ekki á strik, hin leiftrandi sóknarknattspyrna sem hefur einkennt liðið að undanförnu var á bak og burt og í staðinn voru sendingar leikmanna liðsins tilviljunarkenndar og máttlitlar. Vörnin var hins vegar sterk með Tommy Nielsen sem besta mann og var gaman að fylgjast með honum taka Palmer og hreinlega pakka honum saman. Víkingar spiluðu skynsamlega og hefðu, með meiri þolinmæði, getað gert sér mat úr nokkrum ágætis sóknarmöguleikum. Þeir féllu hins vegar aftar á völlinn í síðari hálfleik og virtust vera hæstánægðir með eitt stig gegn toppliðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×