Sport

Enski boltinn rúllar á nýjan leik

Enska knattspyrnan fer formlega af stað á nýjan leik í dag þegar Englandsmeistarar Arsenal og bikarmeistarar Manchester United mætast í hinum árlega leik um Samfélagsskjöldinn. Bæði lið er nokkuð frá því að geta stillt upp sínu sterkasta liði, og þá sérstaklega Arsenal sem munu örugglega spila án Patrick Viera og Sol Campbell, sem eru meiddir. Þá er Thierry Henry einnig tæpur og verður í besta falli á varamannabekknum til að byrja með. Hjá Manchester United er markamaskínan Ruud van Nistelrooy fjarri góðu gamni vegna meiðsla sem og þeir Kleberson og Ole Gunnar Solskjaer. Þá eru Cristiano Ronaldo og Gabriel Heinze uppteknir með landsliðum sínum sem nú undirbúa sig á fullu fyrir ólympíleikana sem hefjast í vikunni. Þetta verður í fimmta sinn á síðustu sjö árum sem Arsenal taka þátt í leiknum og af síðustu fjórum leikjum um Samfélagsskjöldinn hafa þrír unnist. Tapleikurinn var í fyrra, einmitt gegn Manchester United, en þá stóðu leikar 1-1 eftir venjulegan leiktíma en Manchester United sigraði í vítaspyrnukeppni. Það má því segja að Arsenal eigi harma að hefna frá því í leiknum í fyrra. "Ég tek þennan leik alltaf jafn alvarlega þótt enginn líti á Samfélagsskjöldinn sem titil þannig séð," segir Arsene Wenger, framkvæmdastjóri Arsenal. "Fyrst og fremst er þetta góður undirbúningur fyrir deildina og við fáum þarna alvöruleik þar sem úrslitin skipta þó litlu máli. Hraðinn og gæðin í leiknum eru mun betri en í æfingaleikunum fyrir tímabilið og frammistaðan í þessum leik er alltaf gott merki um hversu mikið liðunum langar að afreka á komandi leiktíð," segir Wenger. Alex Ferguson stjóri Manchester United, er á sama máli og kollegi sinn hjá Arsenal og segir að það sé að miklu að keppa. "Stoltið skipar alltaf stóran þátt í þessum leikjum svo að það er öruggt að ekkert verður gefið eftir. Þegar Manchester United og Arsenal eigast við er aldrei tekið létt á því," segir Ferguson sem eins og áður segir þarf að glíma við fjarveru lykilmanna í leiknum, rétt eins og Arsenal. "Ég vona bara innilega að við sleppum í gegnum leikinn án þess að missa fleiri menn í meiðsli. En við eigum fullt af mönnum og ég er ekki í neinum vandamálum með að setja unga og óreynda leikmenn inn í liðið," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×