Innlent

Hverfandi áhrif vegna háspennulína

Umhverfisnefnd Austur-Héraðs berst á næstunni svar frá Landsvirkjun varðandi athugasemdir Sigurðar Arnarsonar, bónda á Eyrarteigi í Skriðdal, vegna deiliskipulags við bæinn þar sem Fljótsdalslínur 3 og 4 liggja. Sigurður segir nálægð við línustæðið gera hús hans óíbúðarhæft og verðlaust. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, bendir á að framkvæmdaleyfi vegna línanna sé í raun óháð deiliskipulaginu. "Þar höfum við sett inn umsókn og bíðum bara viðbragða sveitarfélagsins," segir hann. Sigurður Ragnarsson, formaður umhverfisráðs Austur Héraðs, sagði fyrir skömmu óvíst Landsvirkjun gæti gengið að framkvæmdaleyfi vísu án skilyrða. Allt útlit er fyrir að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði á endanum bætur fyrir eignarnám í landi Eyrarteigs og verður þá væntanlega líka horft til þess hvort nálægð íbúðarhússins við línurnar kalli á frekari bætur. Sigurður Arnarson hafnaði boði Landsvirkjunar um 1,2 milljónir króna í bætur vegna nálægðar línanna við íbúðarhúsið, en um 150 metar eru á milli. Þá segir Eymundur Sigurðsson, yfirmaður kerfisrannsókna á flutningssviði Landsvirkjunar, að áhrif segulsviðs háspennulínanna verði hverfandi í húsinu að Eyrarteigi. Hann segir að miðað við fjarlægðina milli húss og lína megi gefa sér áhrif upp á 0,14 til 0,15 microT, en það er mælikvarði á styrk rafsegulsviðs. Eymundur bendir á að evrópskar reglur miði við 650 microT. "Á skrifstofu þar sem tölvur og önnur raftæki eru í gangi má til dæmis gera ráð fyrir styrk upp á 10 til 100 microT," segir hann. Brynjólfur Snorrason, sjúkranuddari og áhugamaður um áhrif raforkusviðs á umhverfið, segist taka ofan fyrir Sigurði Arnarsyni vegna baráttu hans við Landsvirkjun. "Miðað við það sem erlendir aðilar eru að sjá í dag, þá er húsið hans verðlaust," sagði hann. Brynjólfur telur að miðað við þann frágang sem tíðkast á háspennulínum í dag sé 150 metra fjarlægð íbúðarhúss frá þeim ekki næg. "Þó mér yrði gefið þetta hús og jörðin með þá myndi ég aldrei fara þangað," sagði Brynjólfur og taldi að tæknimenn Landsvirkjunar myndu ekki heldur vilja búa í húsinu á Eyrarteigi eftir að Fljótsdalslínur 3 og 4 væru komnar í notkun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×