Skoðun

Málskotsréttur til þjóðarinnar

Fjölmiðlamálið - Eiríkur Bergmann Einarsson Ætli megi ekki fullyrða að okkar ágæti forsætisráðherra Davíð Oddson hafi farið heldur mikla sneypuför í fjölmiðlafarsanum. Var sem betur fer gerður afturreka með arfavitlaus haftalög sín á fjölmiðla sem aðeins gátu gengið upp í hans eigin kolli. Merkilegast er þó kannski hversu langt hann komst með vitleysuna áður en að hann sökk endanlega ofan í heimatilbúinn forarpyttinn sem hann hefur verið að malla sér og sínum frá því í vor. Honum tókst þrátt fyrir allt að hafa alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins og megnið af Framsóknarflokknum með sér út á foraðið þar til þeir sátu allir saman pikkfastir í eigin aur, upp fyrir haus. Það hratt þeim enginn út í. Samt eira þeir engu. Hver sá sem komst í færi var umsvifalaust attur auri; lögfræðingar, blaðamenn, kauphéðnar, fyrrverandi samherjar, stjórnarandstæðingar og aðrir sem áttu leið hjá áttu fótum sínum fjör að launa. Aursletturnar fengu að fjúka út um allt. Svo reyndi blessaður forsetinn meira að segja að bjarga þeim upp úr og kastaði til þeirra reipi með því að vísa málinu til þjóðarinnar í almenna atkvæðagreiðslu. En ríkisstjórninni virtust þá allar bjargir bannaðar. Í stað þess að nota reipið til að hífa sig upp úr mykjuhaugnum hengdu þeir sig á því. Reyndu að beita þjóðina brellum; fyrst með því að girða af þjóðaratkvæðagreiðsluna með ýmiskonar þröskuldum og höftum og svo með því að afturkalla atkvæðagreiðsluna en setja samt samskonar lög á um leið. Og þeir slógu meira að segja um sig og þóttust bæði sniðugir og snjallir, - nema Björn Bjarnason sem rann á rassinn þegar hann reyndi að ritskoða sjálfan sig eftir á. En sem betur fer lét þjóðin brellur stjórnarstrákanna ekki blekkja sig og flengdi þá á beran bossann eins og mæður þurfa stundum að gera við óþekka stráka. Það eina sem stendur eftir, eftir allan darraðardansinn, er að tvíburarnir í íslenskum stjórnmálum, Davíð og Halldór, ganga ansi laskaðir til stólaskiptanna 15. september, en það er það eina sem núorðið heldur þessari þráu og þaulsetnu ríkisstjórn saman, - nefnilega nakið valdið. Davíð hrökklast beygður maður út úr stjórnarráðinu, eftir að mörgu leyti farsælan feril, og Halldór sest í langþráðan forsætisráðherrastólinn rúinn trausti sem áður þótti hans höfuðkostur. Það verður enginn friðarstóll. En það er ljós í myrkrinu. Í fyrsta sinn á lýðveldistímanum ræða Íslendingar nú grundvallarmál er varða stjórnskipan og lýðræði í landinu. Sannarlega kominn tími til. Vonandi verður stjórnarskráin nú loksins endurskoðuð og málskotsrétturinn færður frá forseta til þjóðarinnar. Það er auðvitað út í hött að einn maður á höfðingjastóli úti á Álftanesi ráði því hvaða mál fara í þjóðaratvæðagreiðslu. Miklu nær að þjóðin ráði því sjálf, til að mynda að fjórðungur atkvæðisbærra manna geti farið fram á það.



Skoðun

Sjá meira


×