Skoðun

Fjölmiðlafrumvarp og lagatilgangur

Fjölmiðlafrumvarpið -  Signý Sigurðardóttir "Gerðar eru lágmarkskröfur til laga, að þau séu réttlát, aðgengileg, þau séu birt, séu stöðug, framkvæmanleg, tryggi frið, gefi skjóta og örugga úrlausn og síðast en ekki síst að þau tryggi réttaröryggi. Að lög séu aðgengileg og skýr er átt við að þau séu þannig úr garði gerð að þau séu skiljanleg sem flestum. Þessi krafa er sérstaklega mikilvæg þegar lög eru íþyngjandi eða skerða frelsi þjóðfélagsþegnanna, t.d. þegar lög kveða á um skerðingu á atvinnufrelsi" Þessi skilgreining er komin frá Sigurði Líndal prófessor. Þetta eru þau grunnatriði sem lögð eru til grundvallar kennslu allra byrjenda í lögfræði. Hvert þessara atriða uppfyllir frumvarpið sem til stendur að gera að lögum á Alþingi? Hvaða "réttlæti" er í því að banna fyrirtækjum "með markaðsráðandi stöðu" að eiga meira en 10% í fjölmiðlafyrirtækjum? Hversu aðgengilegt og skýrt er þetta ákvæði "markaðsráðandi staða"? Hversu "stöðugt" er það umhverfi þar sem afturkalla má útvarpsleyfi fyrirtækis þremur árum eftir gildistöku laganna? Hversu framkvæmanleg eru lög þar sem kveðið er á um skerðingu á atvinnufrelsi með þessu orðalagi "markaðsráðandi staða"? Með hvaða hætti tryggja þessi lög "frið"? Síðast en ekki síst er líklegt að verði þetta frumvarp að lögum að þau lög muni gefa skjóta og örugga úrlausn og tryggja réttaröryggi? Sýnist okkur það á umræðunni nú? Fyrirgefið mér en ég botna hvorki upp eða niður í því hvernig annars sæmilega skynsamt fólk getur staðið blygðunarlaust að því að leggja fram þetta frumvarp að lögum sem nú liggur fyrir Alþingi. Frá því frumvarpið var lagt fram hafið þið talsmenn ríkisstjórnar boðið okkur upp á þann málflutning að hætta steðjaði að og því þyrfti að setja lög á fjölmiðla án tafar. Á sama tíma hafið þið ekki talið sérstaka ástæðu til að skýra út fyrir okkur sem lifum í þessu þjóðfélagi líka og erum neytendur að fjölmiðlum á hverjum degi -- í hverju þessi stórkostlega hætta felst! Hver er rökstuðningurinn að baki málinu? Er til of mikils mælst að þið bendið okkur á hann? Við Íslendingar höfum lengi búið við ótrúlega einsleita fjölmiðlaumræðu, þar sem gamaldags flokkadrættir, mun skyldari trúarbrögðum en almennri skynsemi, hafa verið ráðandi. Ég get ekki séð að stórkostleg breyting hafi orðið á þessu atriði, nema ef vera skyldi að þetta hafi skánað aðeins. Morgunblaðið er ekki lengur sannleikurinn með stórum -- það er smá mótvægi þó ekki sé það stórt. Þessi algjörlega staðnaði markaður -- fjömiðlamarkaðurinn hefur þróast meira undanfarið ár en hann gerði í áratugi þar á undan. Af hverju má ekki leyfa honum að þróast áfram í friði?



Skoðun

Sjá meira


×