Skoðun

Frá degi til dags

Bit í Birni Jörundi Það var bit föstudagsþætti Kastljóssins í Sjónvarpinu sem venjulega eru á léttu nótunum. Meðal gesta í þættinum voru þeir Björn Jörundur Friðbjörnsson, leikari og ritstjóri nýja karlatímaritsins bOGb, og Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar. Strax í upphafi þáttarins tilkynntu spyrlarnir tveir að pólitíkin yrði í aukahlutverki í þættinum enda landsmenn flestir orðnir þreyttir á fjölmiðlamálinu. Björn Jörundur var hins vegar ekki á sama máli og tók að sér að vera þriðji spyrillinn. Stuðaði hann Bjarna hvað eftir annað með hárbeittum spurningum og kommentum. Kallaði hann Bjarna og aðra nýliða á þinginu krakka og þegar Bjarni sagðist hafa meitt sig í fótbolta með alþingismönnum sagði Björn Jörundur að þar væri komin skýring á því hvers vegna þingsalirnir væru alltaf tómir. Þingmennirnir væru líklega allir meiddir heima á meðan þingfundir væru. Fróðlegt verður að lesa næsta bOGb - ryður pólitíkin fögrum konum og kraftmiklum bílum út af síðum blaðsins? Óþarft fyrirbæri? Ríkisendurskoðun þarf að fara íhuga alvarlega sína stöðu ef ekki á að fara fyrir stofnuninni eins og Þjóðhagsstofnun sem Davíð Oddsson forsætisráðherra lagði niður sællar minningar. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi hefur undanfarna daga birt tvær skýrslur. Annars vegar um menntamál og hins vegar framkvæmd fjárlaga. Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði að skýrslan um fjárlögin væri full af rangfærslum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist einfaldlega vera ósammála Ríkisendurskoðun um að stefnuleysi ríkti í málefnum háskólanna og þar með var það afgreitt. Er Ríkisendurskoðun ekki bara óþarft fyrirbæri fyrst það er ekki að marka orð sem hún segir?



Skoðun

Sjá meira


×