Skoðun

Opið bréf til Davíðs og Halldórs

Opið bréf - Elías Davíðsson Þann 23. apríl 1999 sátuð þið leiðtogafundi NATÓ í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington. Vegna þess sem kom fram á fundinum, óska ég vinsamlegast eftir svari ykkar við eftirfarandi spurningum: 1. Er það rétt sem fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, William Cohen, greindi í skýrslu til bandarískrar þingnefndar 14. október 1999, að á ofangreindum NATÓ-fundi hafi verið tekin ákvörðun um að heimila loftárásir á fjölmiðla í Serbíu, þ.e.a.s. heimild um að drepa blaðamenn án dóms og laga ? (sjá www.aldeilis.net) 2. Er það rétt að þið hafið ekki beitt ykkur á fundinum gegn þessari heimild um manndráp ? 3. Er það rétt að þið hafið hvorki ráðfært ykkur við Alþingi né við ríkisstjórnina um þessa ákvörðun né greint Alþingi, ríkisstjórninni eða þjóðinni frá þessari ákvörðun og frá aðild ykkar að henni ? 4. Er það rétt að fáum klukkustundum áður en ákvörðunin var tekin, gerðu flugvélar NATÓ skyndiárás á sjónvarpsstöðina RTS í Belgrad til þess að þagga í útsendingum hennar, með þeim afleiðingum að 16 óbreyttir starfsmenn létu lífið? 5. Er það rétt að þið hafið hvorki mótmælt þessari villimannslegu árás á saklausa starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar né krafist rannsóknar á því hver innan NATÓ hafi heimilað þessi manndráp ? 6. Er það rétt að loftárásir sem beinast að borgaralegum mannvirkjum eða/og óbreyttum borgurum, þ.m.t. að blaðamönnum, teljast stríðsglæpir samkvæmt Genfarsamningunum sem Ísland er aðili að? 7. Er það rétt að Íslandi og öðrum ríkjum ber samkvæmt Genfarsamningunum að lögsækja einstaklinga sem fyrirfinnast innan lögsögu þeirra, án tillits til stöðu og þjóðernis, og eiga aðild að stríðsglæpum? 8. Teljið þið að blaðamenn séu réttdræpir ef þeir stunda stríðsáróður? Ef svo, hver á að dæma hvenær blaðamenn stunda stríðsáróður? 9. Eruð þið tilbúnir til að biðja fjölskyldur hinna saklausu fórnarlamba afsökunar ? 10. Eruð þið tilbúnir til að beita ykkur fyrir því að Ríkissjóður greiði fjölskyldum fórnarlamba skaðabætur til samsæmis við sök ykkar ? 11. Eruð þið tilbúnir til að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að hafa með leynd og í nafni þjóðarinnar blessað og heimilað árás á saklausa borgara annarrar þjóðar?



Skoðun

Sjá meira


×