Skoðun

Frá degi til dags

D fyrir Drottinn! Sunnudagsmessur í Neskirkju eru orðnar ómissandi viðkomustaður þeirra sem ekki fá nóg af málefnum líðandi stundar í fjölmiðlum. Séra Örn Bárður Jónsson, sem þar messar, liggur ekki á skoðunum sínum á þjóðmálum og alþjóðamálum. Hafa af því spunnist nokkrar deilur á opinberum vettvangi en ekki er þó kunnugt um annað en að sóknarbörnin séu sátt við hirði sinn. Engar fréttir hafa borist um klögumál til biskups yfir málfundabragnum á sumum messunum. Og séra Erni Bárði er talið það til tekna að hann er vel máli farinn og kemst oft hnyttilega að orði. Á sunnudaginn var gerði hann sannfæringuna að umtalsefni með þeim orðum að enginn maður væri "með hreina samvisku, skotheldar kenningar eða skoðanir". Og bætti við: "Ekki einu sinni Jón Steinar (öndvert við það sem hann hélt fram í fréttum í gær) eða aðrir lögfræðingar eða ráðherrar eða prófessorar eða prestar eins og hann Örn Bárður". Og hann klykkti út með þessum orðum: "En enginn prestur hefur líklega verið jafn pólitískur og vígslubiskupinn, séra Bjarni Jónsson, sem sagði víst fólki að setja á kjörseðilinn, D fyrir Drottinn! Slíkt mundi ég aldrei gera!" Hannes í Hvíta húsinu Öllu var tjaldað til þegar Davíð Oddsson fór til fundar við Bush forseta í Hvíta húsinu í síðustu viku. Með í för og á vettvangi voru sérfræðingar og ráðgjafar úr ráðuneytum hér heima og sendiráðinu í Washington. Einn nánasti vinur og ráðgjafi forsætisráðherra, Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einnig til taks ef þörf væri talin á pólitískri skyndiráðgjöf þótt ekki væri hann í hinni opinberu sendinefnd og tæki ekki þátt í sjálfum fundinum. Þegar blaða- og sjónvarpsmenn sungu óvænt afmælissönginn fyrir Bush að fundi loknum var Hannes Hólmsteinn mættur í Oval Office, skrifstofu forsetans, og tók undir.



Skoðun

Sjá meira


×