Skoðun

Frá degi til dags

Frá degi til dags Söng ekki Fyrir kemur að áreiðanlegustu blöðum verða á mistök. Það henti DV í gær þegar blaðið var að fjalla um uppáhaldið sitt, Davíð Oddsson forsætisráðherra. Kemur þetta á óvart því vanalega sýnir blaðið sérstaka vandvirkni og óhlutdrægni þegar sá góði maður á í hlut. Orðrétt sagði í blaðinu: "Það var tilfinningaþrungin stund þegar Davíð Oddsson og blaðamenn Hvíta hússins sungu um daginn afmælissönginn fyrir George W. Bush sem varð 58 ára þann 6. júlí". En eins og þeir muna sem sáu þetta í sjónvarpinu tók Davíð ekki undir sönginn, heldur hélt ró sinni við þessa óvæntu uppákomu. En spurningin er hvort niðurstaða fundarins hefði orðið önnur ef forsætisráðherra hefði sungið hressilega með eins og hann gerði á plötunni hér forðum daga. Enn ein brellan Vinnubrögð stjórnarflokkanna í fjölmiðlamálinu eru með slíkum ólíkindum að annað eins hefur ekki sést á Alþingi um árabil. Nú er að koma á daginn að stjórnarliðar hafa líklega fyrirfram gert sér grein fyrir því að þeir fengju ekki nýja fjölmiðlafrumvarpið samþykkt breytingalaust. Það skýrir hvers vegna þeir settu inn í það hina furðulegu klausu um að hægt sé að afturkalla útvarpsleyfi þegar nýju lögin taka gildi, en sams konar ákvæði var tekið út úr eldra frumvarpinu og þá viðurkennt að afturköllun leyfa stæðist tæplega stjórnarskrána. Ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns allsherjarnefndar, í Fréttablaðinu í gær vekja upp þá spurningu hvort stjórnarþingmenn ætli að nota þetta atriði sem eins konar skiptimynt í þinginu og til að skapa sér þá ímynd að þeir séu tilbúnir til málamiðlana. Spurning hvort þeir komist upp með slíkt háttalag.



Skoðun

Sjá meira


×