Skoðun

Í höndum þjóðarinnar

Hinn 2. júní sl. beitti forseti lýðveldisins heimild í 26. grein stjórnarskrárinnar og synjaði lagafrumvarpi staðfestingar. Í þessari grein stjórnarskrárinnar stendur: "Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Þessi ákvæði eru einföld og skýr. Með ákvörðun forseta var framtíð þessara laga í höndum þjóðarinnar. Í samræmi við þessa ákvörðun forseta lýðveldisins var gefið út svohljóðandi forsetabréf og forsætisráðherra las við upphaf þingfundar sl. mánudag: "Forseti Íslands gerir kunnugt: Forsætisráðherra hefur tjáð mér að nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til að fjalla um tilhögun atkvæðagreiðslu þeirrar sem ákveðið hefur verið að fram skuli fara um frambúðargildi laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/ 2000 og samkeppnis lögum nr. 8 1993 , sem samþykkt voru á stjórnskipulegan hátt á Alþingi hinn 24. maí sl. Fyrir því hef ég ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda mánudaginn 5. júlí 2004 kl. 15." Það er því ljóst að fyrir þessu þingi liggur fyrst og fremst að kveða á um tilhögun boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það frumvarp sem ríkisstjórnin nú flytur miðar að því að koma í veg fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess hefur ríkisstjórnin engan rétt og Alþingi ekki heldur. Þjóðin á samkvæmt skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar að kveða upp dóm um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hlutverk stjórnmálamanna í þessu sambandi er einungis að greiða fyrir að svo megi verða. Málið er því afar einfalt og hreinir úrúrsnúningar að þyrla um framkvæmdina moldviðri. Þjóðin hlýtur að mótmæla þeirri gerræðislegu ætlan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að hafa af þjóðinni stjórnarskrárvarinn kosningarétt með bellibrögðum. Væri þeim nær að minnast orða Njáls á Bergþórshvoli að ,,með lögum skal land byggja".



Skoðun

Sjá meira


×