Skoðun

Frá degi til dags

Óviss framtíð Framtíðarhópur Samfylkingarinnar sem fór af stað með flugeldasýningu í vetur sem leið hefur hljótt um sig um þessar mundir. Ef marka má vefsíðuna framtid.is, sem hópurinn heldur úti, hefur starfið legið í dvala mánuðum saman. Fundargerðir verkstjórnarhópa eru flestar frá því í febrúar og mars. Það er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sem stýrir þessu starfi og hafa margir litið á það sem leið hennar til formennsku í flokknum á næsta flokksþingi. Össur Skarphéðinsson virðist hins vegar ekki ætla að gefa formannsstólinn eftir og þykir hafa staðið sig vel í pólitískum átökum við ríkisstjórnina að undanförnu. Kannski á óvissan um forystu flokksins - og þar með framtíðina - þátt í deyfðinni í málefnavinnunni. "Traustir þýðendur" Stuttu eftir að blaðamannafundi Bush Bandaríkjaforseta og Davíðs Oddssonar í Washington á þriðjudaginn lauk hafði blaðafulltrúi forsetans komið orðréttri útskrift af fundinum á vef Hvíta hússins. Þar kemur fram að þegar forsætisráðherra okkar var spurður um árangur fundarins rak hann í vörðurnar, eins og kemur fyrir bestu menn, og svaraði á ensku: "That was never - the meeting - was to have an agreement". Svolítið flókið en lagast þegar skjalaþýðendur ríkisstjórnarmálgagnsins, Morgunblaðsins, hafa unnið vinnuna sína og látið ráðherrann segja það sem hann hefur líklega viljað segja eins og lesa mátti í blaðinu í gær: "Það var aldrei - fundurinn snerist ekki um að ná samkomulagi".



Skoðun

Sjá meira


×