Skoðun

Frá degi til dags

Orðasafn Steingríms J. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, bætti enn einni fjólunni við skrautlegt orðasafn sitt í gær þegar hann hljóp á eftir Halldóri Blöndal þingforseta úr þingsalnum í Alþingishúsinu og kallaði hann „djöfulsins aumingja“. Ekki er langt síðan hann kallaði Davíð Oddsson forsætisráðherra „gungu“ og „druslu“ í ræðustól á Alþingi. Auðvelt er að fordæma svona orðanotkun en þingmanninum til málsbóta má segja að framkoma ráðamanna var í bæði skiptin fyrir neðan allar hellur. Í fyrra skiptið rauf forsætisráðherra hefð og neitaði að koma í þingsalinn til að hlýða á umræður og bar við að hann væri upptekinn á fundi; en sagt er að hann hafi þá verið flissandi í hliðarsal. Í seinna skiptið, í gær, töldu þingmenn að Halldór Blöndal hefði á ósvífinn hátt brotið þingsköp með því að meina þingmönnum að ræða um fundarstjórn forseta. Á tunglinu 1964? „Hver tók myndina af Armstrong þegar hann tók „fyrstu“ skrefin á tunglinu? Var þá ekki einhver annar búin að labba á tunglinu til að mynda hann?“ Þannig var spurt á Vísindavef Háskóla Íslands fyrir nokkru síðan. Í löngu svari reyndu fræðimenn háskólans að hrekja vinsælar samsæriskenningar um að þessi fyrsta mannaða tunglferð árið 1969 hafi verið fölsuð í myndveri Bandaríkjastjórnar. En nú hafa komið fram upplýsingar sem kunna að leiða til þess að þeir verði að endurskoða svör sín. Í Morgunblaðinu í gær, þar sem sagt er frá heimsókn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra til Lyndons B. Johnson Bandaríkjaforseta sumarið 1964, kemur fram að mynd af Armstrong á tunglinu hafi verið til í Hvíta húsinu fimm árum fyrir tunglferðina og hafi Bjarni fengið hana að gjöf. Orðrétt segir: „Bjarni gaf Bandaríkjaforseta Guðbrandsbiblíuna... og Lyndon B. Johnson gaf íslenska forsætisráðherranum ræðusafn sitt, gullbakka og mynd af Armstrong á tunglinu“ [leturbreyting okkar]. Sannarlega athyglisvert!



Skoðun

Sjá meira


×