Skoðun

Það á að segja satt

Norðurljós - Skarphéðinn Berg Steinarsson Í umræðu um fráfarandi fjölmiðlalög hefur margt verið sagt sem ekki er satt. Ekki ætla ég að eltast við allt það sem ósatt er og komið hefur frá helstu aðdáendum laganna, þeim Hannesi H. Gissurarsyni prófessor og Jakobi Ásgeirssyni ævisöguritara. Svo virðist sem þeir ágætu menn taki jafnan þann kostinn að segja frekar ósatt en satt þegar þeir fjalla um Norðurljós og hluthafa félagsins. Vona ég að þeir hafi meiri metnað þegar kemur að öðrum áhugasviðum sínum. Verra þykir mér þegar menn sem maður gerir meiri væntingar til í umgengni við sannleikann eru farnir að breiða út sögur sem eru ósannar. Á liðnum dögum hefur það í tvígang gerst. Annars vegar þegar upplýsingafulltrúi Þjóðminjasafnsins vísaði til sögusagna í Kastljósi sl. föstudag um að heildsölum sem ekki auglýstu í Fréttablaðinu væri refsað með því að draga úr hilluplássi fyrir þeirra vörur í verslunum Baugs. Hins vegar voru það furðulegar yfirlýsingar Stefáns Snævarrs heimspekings í grein í Morgunblaðinu um að sum af fjölmiðlafyrirtækjum Baugs væru rekin með bullandi tapi. Hvort tveggja er rangt. Opin lýðræðisleg umræða er okkur nauðsynleg. Það er mikilvægt að menn hafi tök á að koma rökstuddum skoðunum sínum á framfæri. Til þess eru fjölmiðlar og mikilvægt að þeir séu fjölbreyttir líkt og er hér á landi. Ef umræðan á að leiða okkur til farsællar niðurstöðu er mikilvægt að þeir sem taka þátt í umræðunni segi satt. Þó að einstakir stjórnmálamenn og talsmenn þeirra séu löngu hættir að segja satt í umræðu um fjölmiðla Norðurljósa og aðstandendur félagins vil ég biðja hina að gæta sín á þeirri freistingu að fara út í ósannindi til að rökstyðja mál sitt. Allra síst er það sæmandi talsmanni Þjóðminjasafnsins eða heimspekiprófessor. Höfundur er stjórnarformaður Norðurljósa hf.



Skoðun

Sjá meira


×