Skoðun

Frá degi til dags

„Alger sátt“ Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, segir í Fréttablaðinu í gær að "alger sátt" sé um nýjustu tillögu ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu. Um þingflokksfundinn þar sem málið var rætt segir hann: "Það tjáðu sig mjög margir og allir voru mjög ánægðir og sáttir við niðurstöðuna". Um leið og sjálfstæðismönnum er óskað til hamingju með einhuginn og samheldnina leyfist kannski að rifja upp að þetta er fimmta útgáfan af málinu frá því á vordögum. Um allar útgáfurnar hefur ríkt "alger sátt" í þingflokki sjálfstæðismanna! Orðið "sátt" er því farið að fá ansi mótsagnakennda merkingu samkvæmt þessu. Mælirinn fullur? Menn velta því nú fyrir sér hver viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta verði við nýjasta útspili Davíðs Oddssonar og félaga í fjölmiðlamálinu. Í raun og veru stendur ekki til að gera neina jákvæða efnisbreytingu á lögunum. Nýju lögin verða frekar íþyngjandi en hin eldri þar sem til stendur að svipta Norðurljós útvarpsleyfi þegar við gildistöku laganna en ekki láta leyfin renna út. Klemman sem forsetinn er settur í varðar gildistöku nýju laganna. Telja stjórnarliðar ómögulegt fyrir forsetann að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þau taki ekki gildi fyrr en eftir næstu þingkosningar - og því megi líta á þær kosningar sem nokkurs konar þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Augljóst er að með þessu telur ríkisstjórnin sig hafa leikið snjallan leik og gert synjunarvald forsetans óvirkt. Davíð Oddsson segir í Fréttablaðinu í gær að hann hafi skýrt Ólafi Ragnari frá áformum stjórnarinnar. Hafi hann aðeins svarað því til að þetta væri "fróðlegt". Og þá er bara að velta því fyrir sér hvaða merkingu má leggja í orð forsetans. Er hann skák og mát eða telur hann að nú sé mælir ósvífninnar fullur?



Skoðun

Sjá meira


×