Sport

Charisteas sannur sigurvegari

Grikkir urðu í kvöld Evrópumeistarar í fótbolta eftir 1-0 sigur á gestgjöfum Portúgals í úrslitaleik í Lissabon. Angelos Charisteas skoraði sigurmarkið á 57. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Charisteas er sannur sigurvegari en þetta var þriðji stóri titill hans á tímabilinu því hann varð tvöfaldur meistari með Werder Bremen í vetur. Angelos Charisteas skoraði þrjú mörk fyrir Grikki í keppninni og öll voru þau gríðarlega mikivæg. Fyrst jafnaði hann metin gegn Spáni í öðrum leik riðlakeppninnar en jafnteflið gerði það að verkum að Grikkir máttu tapa síðasta leiknum í riðlinum. Þá skoraði hann eina markið í sigrinum á Evrópumeisturum Frakka í átta liða úrslitum og loks tryggði hann Grikkjum Evrópumeistaratitilinn í kvöld. Charisteas er 24 ára og spilar með Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni og varð því bæði þýskur meistari og bikarmeistari í vetur. Hann skoraði 4 mörk í 24 leikjum síðasta vetur en fékk aðeins að byrja inn á í sjö leikjanna - kom 17 sinnum inn á sem varamaður. Charisteas spilaði alls í 912 mínútur með Werder Bremen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×