Skoðun

Frá degi til dags

Frá degi til dags Sár ráðherra Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur lengi litið á sig sem einn helsta talsmann íslenska hestsins. Honum sárnaði því mikið þegar forsvarsmenn Landsmóts hestamanna, sem lauk á Hellu í gær, ákváðu að bjóða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að setja mótið. Svo mikið sárnaði Guðna að hann íhugaði að mæta ekki á mótið. Reiðin rann þó af ráðherranum, sem auk þess að vera mikill unnandi íslenska hestsins er heiðursfélagi í Hrútavinafélaginu, og mætti á svæðið. Guðni hefur varla viljað missa af úrvalssýningu kynbótahrossa, enda hefur hann sagt að íslenski hesturinn sé einn hestur guðanna. Mislíkaði orð formannsins Það er álit margra að Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sé einráður í Valhöll. Enginn í þingflokknum þori að standa á móti honum heldur kokgleypi allt sem hann segir, jafnvel þó að það stangist á við hugsjónir viðkomandi. Það kom því nokkuð á óvart þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lýsti því yfir í DV í gær að henni hefði mislíkað aðför Davíðs að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í frægu sjónvarpsviðtali. Í sjónvarpsviðtalinu sagði Davíð að Ólafur Ragnar væri vanhæfur í fjölmiðlamálinu vegna tengsla sinna við Baug. Dóttir forsetans ynni meira að segja hjá fyrirtækinu. „Mér mislíkaði þegar ættingjar [dóttir Ólafs Ragnars] voru dregnir inn í umræðuna,“ sagði Þorgerður Katrín í DV.



Skoðun

Sjá meira


×