Sport

Allt eftir bókinni í bikarnum

Fjögur lið úr Landsbankadeild karla og tvö lið úr 1. deild karla tryggðu sér í gær sæti í átta liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu þegar sex af átta leikjum 16 liða úrslitanna fóru fram. Víkingar taka á móti KA í dag og Fram og Keflavík mætast á mánudaginn. Fylkismenn unnu stóran sigur, 4–1, á Grindvíkingum á heimavelli sínum í Árbænum. Fylkismenn komust yfir á 24. mínútur þegar Björgólfur skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúing Sævars Þórs Gíslasonar, Grétar Hjartarson átti í kjölfarið tvö hættuleg færi hjá Grindavík en Ólafur Júlíusson nánast kláraði leikinn fyrir Grindavík með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla undir lok hálfleiksins. Fyrra mark hans var nánast endurtekning á fyrsta marki leiksins og aftur var Sævar Þór arkitektinn. Seinna mark kom eftir hroðaleg mistök Alberts Sævarssonar, markvarðar Grindavíkur, þegar hann missti lausa aukaspyrna Ólafs Stígssonar fyrir fætur hans. Í seinni hálfleik skoruðu liðin sitt hvort markið, Guðmundur Andri Bjarnason minnkaði muninn á 60. mínútu af stuttu færi áður en Finnur Kolbeinsson innsiglaði sigurinn fyrir Fylki með þrumuskoti fyrir utan teig. Garðar Gunnlaugsson tryggði Valsmönnum sigurinn á Þrótti með föstu skoti fyrir utan teig sem Stefán Logi Magnússon, markvörður Þróttar, missti klaufalega af. Garðar var í fyrsta sinn í byrjunarliði Valsmanna og byrjar því vel hjá Hlíðarendaliðinu. Hann skoraði ekki í fjórum leikjum með Skagamönnum í upphafi tímabilsins. Þróttarar sóttu stíft það sem eftir var leiksins en fundu enga glufu fram hjá Kristni Guðmundsson, góðum markmanni Valsmanna. Kristinn var maður leiksins varði meðal annars þrisvar einn á móti sóknarmönnum Þróttar. Arfaslakir og áhugalausir FH-ingar kreistu fram eins marks sigur á 1. deildarliði Aftureldingar í Kaplakrika í gær. Bæði lið fengu ágæt færi í fyrri hálfleik en í þeim seinni gerðist nánast ekki neitt og leikurinn fjaraði út. Emil Hallfreðsson kom FH-ingum í átta liða úrslitin með marki út vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks eftir að varamaðurinn Simon Karkov hafði fiskað hana aðeins tíu sekúndum eftir að hann kom inn á. Kjartan Henry Finnbogason er búinn að brjóta ísinn með KR-liðinu en hann skoraði tvö mörk í 3–1 sigri Íslandsmeistaranna í Njarðvík. Kjartan Henry hafði spilað mjög vel í sumar en átti enn eftir að skora í átta deildar- og bikarleikjum. Kjartan skoraði fyrsta mark KR á 6. mínútu með laglegum skalla eftir glæsilegan undirbúning Theódórs Elmars Bjarnasonar. KR-ingar bættu við öðru marki í upphafi seinni hálfleiks þegar fyrirgjöf Ágústs Þór Gylfason sigldi alla leið í markið. Kjartan Henry skallaði síðan inn aukaspyrnu á 59. mínútu. Jón Fannar Guðmundsson minnkaði muninn fyrir Njarðvík á 66. mínútu en KR-ingar höfðu mikla yfirburði í þessum leik. HK vann sinn sjötta 1–0 sigur í sumar á 3. deildarliði Reynis úr Sandgerði og markvörður þeirra og fyrirliði Gunnleifur Gunnleifsson hélt marki sínu hreinu í áttunda sinn í tíu deildar- og bikarleikjum. Finnur Ólafsson skoraði sigurmarkið með skoti af 25 metra færi. Þetta er í fyrsta sinn sem Kópavogsliðið kemst í átta liða úrslitin en 11 ár voru liðin síðan að HK hafi í verið í 16 liða úrslitum í eina skiptið.  Leik ÍBV og Stjörnunnar var seinkað um 45 mínútur vegna erfiðleika í samgöngum. Jón Skaftason rekinn út af á 61. mínútu og Eyjamenn léku manni færri síðasta hálftíma leiksins. Einar Þór Daníelsson skoraði sigurmarkið á laglegan hátt tólf mínútum fyrir leikslok eftir sendingu frá Andra Ólafssyni. Úrslitin í 16 liða úrslitum visa-bikars karla Þróttur R. – Valur 0–1 0–1 Garðar Gunnlaugsson (26.). Fylkir – Grindavík 4–1 1–0 Björgólfur Takefusa (24.), 2–0 Ólafur Júlíusson (42.), 3–0 Ólafur Júlíusson (45.). 3–1 Guðmundur Andri Bjarnason (60.), 4–1 Finnur Kolbeinsson (70.). Njarðvík – KR 1–3 0–1 Kjartan Henry Finnbogason (6.), 0–2 Ágúst Þór Gylfason (51.), 0–3 Kjartan Henry Finnbogason (59.), 1–3 Jón Fannar Guðmundsson (66.). HK – Reynir S. 1–0 1–0 Finnur Ólafsson (15.). FH – Afturelding 1–0 1–0 Emil Hallfreðsson, víti (42.). ÍBV – Stjarnan 1–0 1–0 Einar Þór Daníelsson (78.). Í pottinum fyrir 8 liða úrslitin KR, Fylkir, HK, FH, Valur, ÍBV, Víkingur/KA (lau. kl. 14) og Fram/Keflavík (mán. kl. 19.15.)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×