Skoðun

Frá degi til dags

Kurr í sagnfræðingum Nokkur kurr hefur verið í sagnfræðingum og söguáhugafólki vegna styrkveitingar Menningarsjóðs til Bókafélagsins Uglu ehf. sem ætlar að endurútgefa bækur Kristjáns Albertssonar um Hannes Hafstein frá árinu 1961 og er þetta þriðja útgáfan. Bókin vakti mikinn styr á sínum tíma vegna aðdáunar Kristjáns á Hannesi, sem sögð er jaðra við að vera blætiskennd. Hann reit meðal annars: "[menn] af öllum flokkum heillast af persónu Hannesar Hafsteins, hinum fallega, sterka, ljúfa og drengilega manni..." Það er Jakob F. Ásgeirsson, "hinn orðprúði dálkahöfundur Viðskiptablaðsins," eins og Páll Björnsson sagnfræðingur kemst að orði, sem ritstýrir verkinu. Guðjón Friðriksson ritar um þessar mundir ævisögu ráðherrans og þykir mörgum það nóg því bækur Kristjáns eru óvíða taldar eiga mikið erindi við samtímann. Davíð Oddsson hefur meðal annars sagt blasa við að þær séu "skrifaðar af einlægum aðdáanda" og gjaldi þess. Dempaður ósigur Sitt sýnist hverjum um viðbrögð ráðamanna og fyrirætlanir varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram á að fara um fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar. Rætt er um þátttökuskilyrði sem varnarleik, svona til að dempa ósigurinn. Þeir fyrirfinnast þó líka sem telja að með þátttökuskilyrðum séu menn frekar að horfa fram í tímann og hugsa um þjóðaratkvæðagreiðslur sem, að settu fordæmi, kunni að fylgja í kjölfarið. Vitað mál sé að fjölmiðlalögin verði felld úr gildi, en verið sé að búa í haginn fyrir seinni tíma átök. Tapaðar orrustur Enn af töpuðum orrustum því fregnir berast af því að Davíð Oddsson ætli að hitta George W. Bush næsta þriðjudag til að ræða "alþjóðamál og samskipti landanna" að því er sagði í tilkynningu forsætisráðuneytisins. Ekki kom fram hvort þær umræður fælu líka í sér atvinnumál á Suðurnesjum, en fyrir dyrum stendur enn frekari samdráttur og endurskipulagning herafla Bandaríkjanna um allan heim.



Skoðun

Sjá meira


×