Sport

16 ára bið Hollendinga lengist enn

Hollendingar er enn einu sinni dottnir úr leik á stórmóti í knattspyrnu áður en kemur að úrslitaleik keppninnar. Þetta seinheppna lið, sem hefur innan sinna raða marga af bestu knattspyrnumönnum heims, hefur ekki unnið titil síðan Hollendingar urðu Evrópumeistarar í Þýskalandi fyrir sextán árum síðan. Frá þeim tíma hefur liðið þó þrisvar komist í undanúrslit. Nú þykir komið að enn einum kynslóðaskiptunum og enn hefur leitin að hinum nýja Ruud Gullit og nýja Marco van Basten ekki borið árangur en það voru þeir tveir sem áttu mestan þátt í að gera Hollendinga að Evrópumeisturum 1988. Fimm leikmenn hættu strax eftir að liðið datt út úr EM í fyrrakvöld: vængmaðurinn Marc Overmars, varnarmennirnir Jaap Stam og Frank de Boer, markvörðurinn Edwin van der Sar og svo miðvallarleikmaðurinn Paul Bosvelt sem spilaði bara í 31 mínútur í keppninni. Það er líka búist við að fyrirliðinn Phillip Cocu hætti líka og því verður mun yngra hollenskt landslið á HM 2006 en var í Portúgal. Ruud van Nistelrooy og Patrick Kluivert eiga margt sameiginlegt, þeir spila sömu stöðu hjá hollenska landsliðinu og fengu báðir leiðinlega afmælisgjöf því þeir urðu báðir 28 ára gamlir í gær, daginn eftir 1-2 tap gegn Portúgölum í undanúrslitaleik EM í Portúgal. Dick Advocaat, þjálfari hollenska landsliðsins, taldi sig ekki geta notað þessa sóknarmenn saman og van Nistelrooy spilaði því alla leikina en Kluivert fékk ekki að koma inn á í eina mínútu. Kluivert hefur skorað 40 mörk fyrir landsliðið á móti 18 hjá van Nistelrooy og það er því ekki að ástæðulausu að hollenskir fjölmiðlar hafi verið fljótir til að gagnrýna liðið þegar illa gekk enda þrír af bestu framherjum Evrópu sitjandi á bekknum. Kluivert fékk ekkert að koma inn á, Pierre van Hooijdonk fékk að spila í 25 mínútur og Roy Makaay lék i 97 mínútur eftir að hafa komið þrisvar inn á sem varamaður. Makaay skoraði 23 sinnum í 32 leikjum með Bayern München í vetur, van Hooijdonk skoraði 24 mörk í 34 leikjum fyrir tyrknesku meistarana í Fenerbahce og Kluivert skoraði 8 mörk í 21 leik fyrir Barcelona en glímdi við erfið meiðsli á tímabilinu. Með alla þessa snjöllu sóknarmenn lengstum á bekknum skoraði hollenska liðið sjálft ekkert mark á síðustu 210 mínútum sínum í keppninni, eina mark liðsins í átta liða úrslitum og undanúrslitum var sjálfsmark Portúgalans Jorge Andrade og fyrir vikið er liðið á leiðinni heim frá Portúgal. Það er líka búist við að Dick Advocaat hætti með liðið í annað sinn á ferlinum en hann hætti einnig með liðið í desember 1994 eftir að hafa mistekist að fylgja eftir árangri Rinus Michels, sem gerði Holland einmitt að Evrópumeisturum 1988. Síðan þá hefur engum tekist að jafna árangur hans og nú vilja margir að knattspyrnusambandið horfi til útlanda eftir nýju blóði. Tvær fyrrum stórstjörnur hollenska liðsins eru þó heitar fyrir starfinu: Ronald Koeman, sem lék stórt hlutverki í Evrópumeistaraliðinu og þjálfar nú hollensku meistaranna í Ajax Amsterdam og svo Johan Neeskens, sem lék stórt hlutverk í hollenska landsliðinu sem tapaði úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar bæði 1974 og 1978. Hollenska landsliðið er samt sem áður eitt mest spennandi verkefnið í fótboltaheiminum enda líklega hvergi annars staðar jafn mikið framboð af frábærum leikmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×