Sport

Baric hættir með Króata

Otto Baric hefur ákveðið að láta af störfum sem landsliðsþjállfari Króata. Króatar náðu ekki að komast áfram úr sínum riðli á EM í Portúgal en liði hefur undanfarin ár verið á meðal bestu landsliða heims og þessi árangur nú því talsverð vonbrigði. Baric sagði þó aðalástæðuna fyrir uppsögn sinni vera ósanngjörn umfjöllun fjölmiðla um hann og landsliðið: "Það er erfitt að sitja undir slíkum ámælum og þetta er eitthvað sem ég get einfaldlega ekki sætt mig við. Menn í æðstu stöðum innan knattspyrnusasmbandsins, meðal annars forseti þess, báðu mig um að endurskoða ákvörðun mína en henni verður ekki haggað," sagði Baric sem í síðasta mánuði hélt upp á 71 árs afmæli sitt. Forseti Króatíska knattspyrnusambandsins, Vlatko Markovic, sagði alltaf slæmt að sjá á eftir góðum mönnum en menn yrðu einfaldlega að sætta sig við það og horfa fram á veginn: "Helst af öllu viljum við að maðurinn sem taki við af Baric hafi bæði náð góðum árangri sem leikmaður og þjálfari. Næsta verkefni liðsins er að komast á HM 2006 í Þýskalandi og þótt við vitum að það verði erfitt eigum við að geta það." Ekki er enn vitað hvort Baric hafi í hyggju að halda áfram þjálfun á öðrum vettvangi.Þess má geta að við Íslendingar erum einmitt í riðli með Króötum í undankeppni HM 2006 en mætum þeim reyndar ekki fyrr en í mars á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×