Sport

Hitzfeld hafnar draumastarfinu

Ottmar Hitzfeld, sem hætti störfum hjá Bayern München í vor, hefur ákveðið að hafna því að taka við stjórn þýska knattspyrnulandsliðsins af Rudi Völler. Hinn 55 ára gamli Hitzfeld sagðist einfaldlega ekki vera í nægilega góðri aðstöðu þessi misserin til að taka við starfinu: "Það var síður en svo auðveld ákvörðun að hafna þessu tilboði þýska knattspyrnusambandsins. Í raun var það mjög, mjög erfið ákvörðun. En ég er hins vegar ekki í nógu góðu ástandi núna til að gera það sem nauðsynlegt er fyrir landsliðið fyrir HM 2006 í Þýskalandi," sagði Hitzfeld en hann hafði lofað konu sinni að taka sér frí frá þjálfun eftir að hann lét af störfum sem þjálfari Bayern München. Við það hefur hann nú staðið en fórnin er stór. Það er varla til meira draumastarf fyrir þýskan þjálfara en það að taka við landsliðinu fyrir HM sem haldin verður í Þýskalandi. "Hvað er það sem fellir menn? Konur og vín. Í gegnum aldir og gerir enn, konur og vín," söng Rúnni Júl með hljómsveitinni GCD. Í tilviki Hitzfelds var það konan. Þeir sem nú eru helst orðaðir við stöðuna eru Christoph Daum og Otto Rehhagel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×