Sport

Eriksson tekjuhæsti þjálfarinn

Góð laun og góður árangur fara ekki alltaf saman. Þetta kom berlega í ljós á EM í Portúgal þegar borin voru saman laun landsliðsþjálfara liðanna. Eins og flestir bjuggust við borga stærstu knattspyrnusamböndin hæstu launin. Það var enska dagblaðið The Guardian sem stóð fyrir þessu og samkvæmt því er Sven-Göran Eriksson, landsliðaþjálfari Englendinga, tekjuhæstur með um það bil 11 milljónir króna á viku. Miðað við frammistöðu Englendinga undir stjórn Erikssons er hann ekki verðugur þessara launa, sérstaklega þegar árangur tækjulægsta þjálfarans á EM er skoðaður í samanburði við árangur Erikssons. Sá tekjulægsti er enginn annar en þjálfari Tékka, Karel Brückner, með rétt um tíu milljónir króna á ári og óhætt að segja að þeim peningum sé vel varið. Luis Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Portúgala, er með eitthvað um þrjár milljónir króna á viku, en á væntanlega í vændum væna bónusgreiðslu vegna frábærs árangurs á EM. Rudi Völler, sem er nýhættur þjálfun þýska landsliðsins, var með fimm milljónir króna á viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×