Sport

Nóg að gera hjá Keflvíkingum

Íslands- og bikarmeistarar síðustu tveggja ára í Keflavík standa í stórræðum á næsta tímabili. Þeir taka þátt í bikarkeppni Evrópu líkt og í fyrravetur þar sem þeir stóðu sig vel og unnu þrjá af fjórum heimaleikjum sínum gegn liðum frá Portúgal og Frakklandi. Það verður dregið í riðla á laugardaginn kemur í München í Þýskalandi og það kemur fram á heimasíðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur að fulltrúar Keflavíkur verða á staðnum og reyna að nota tækifærið, líkt og í fyrra, til að ná hagstæðum leikdögum með tilliti til ferðakostnaðar. Í fyrra tókst sem dæmi að leika tvo leiki í sömu ferð til Portúgals og sparari það töluvert fé en það eru leikmennirnir og stjórnarmenn sem standa fyrir fjáröflun fyrir Evrópukeppnina. Ekki er víst hvernig þessum liðum verður raðað í riðla, en ljóst er þó að niðurröðunin verður svæðisbundin líkt og í fyrra þegar Keflavík spilaði í vesturdeildinni og var í riðli með tveimur portúgölskum liðum og einu frönsku. Á heimasíðu þeirra Keflvíkinga kemur fram að ekki sé ólíklegt að liðið mæti liðum frá Danmörku, Frakklandi og Portúgal að þessu sinni. Athygli vekur að félög frá Ítalíu, Spáni og Grikklandi taka ekki þátt í þessari keppni, en þau hafa stofnað með sér sérstaka deild, svokallaða ULEB-deild. Á vegum FIBA eru tvær keppnir, meistaradeild Evrópu (FIBA Europe League) og bikarkeppni Evrópu (FIBA Europe Cup). Í þeirri fyrrnefndu leika 32 lið en 33 í bikarkeppninni. Á vegum ULEB leika 42 lið í ULEB-deild. Auk þátttöku í bikarkeppni Fiba mun Keflavík einnig leika í meistaramóti félagsliða á Norðulöndum í haust, en þegar er ljóst að meistarnir frá Íslandi, Noregi og Finnlandi taka þátt. Afar líklegt er líka að Plannja, meistararnir frá Svíþjóð, taki þátt, en þeir eru afar sterkir og skarta m.a. tveimur sterkum Könum og öðrum tveimur öflugum leikmönnum frá Litháen. Sú keppni verður leikin á fjórum dögum í lok september. Bikarkeppni Evrópu hefst væntanlega í nóvember. Það stefnir því í viðburðaríkan vetur í Keflavík en þrátt fyrir mikið álag í fyrra vann liðið þrjá af fimm titlum í boði og spilaði allar keppnir fram í úrslitaleik. Hámarksfjöldi leikja var spilaður í deild (22), bikar (5), fyrirtækjabikar (6), meistarakeppni (1) og úrslitakeppni (12). Keflavík spilaði því alls 46 leiki í keppnum heima og svo átta Evrópuleiki til viðbótar eða samtals 54 keppnisleiki á tæpum sjö mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×