Sport

Ralf Schumacher frá í 2-3 mánuði

Meiðsli Ralfs Schumachers, sem hann varð fyrir í síðustu Formúlukeppni, eru alvarlegri en í fyrstu var talið. Hann mun verða frá keppni í það minnsta næstu 2-3 mánuði. Þetta fékkst staðfest í gær eftir skoðun hjá læknum í Þýskalandi en þar kom í ljós að Ralf er með sprungur í tveimur hryggjarliðum. Williams liðið hefur þegar gengið frá því að Marc Gene muni taka stöðu Ralfs en hann hefur verið æfinga- og varaökumaður liðsins. Ralf hefur átt í samningaviðræðum við Toyota þess efnis að hann muni ganga til liðs við þá á næsta keppnistímabili. Orðrómur er á kreiki um að hann sé þegar búinn að útbúa samning ásamt Willy Webber umboðsmanni sínum til næstu fimm ára og muni þiggja í laun tuttugu miljónir dollara á ári. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest hjá forráðamönnum Toyota. Að vonum var Ralf brugðið við þessi tíðindi sem hann fékk á tuttugasta og níunda afmælisdaginn sinn: "Mér er auðvitað brugðið en það er ekki annað hægt en að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Ég verð einfaldlega að hvílast og bíða þangað til ég er búinn að ná mér að fullu," sagði Ralf Schumacher. "Ég óska Ralf skjóts bata og vonast til að sjá hann í fullu formi áður en keppnistímabilið er á enda," sagði Frank Williams og bætti við: "Sem betur fer erum við þó það heppnir að hafa frábæran ökumann til að fylla skarð hans, sem Marc Gene er."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×