Sport

Valencia í mál við Benitez

Spænska liðið Valencia hefur höfðað mál á hendur fyrrum þjálfara þess, Rafael Benitez, en þeir telja hann hafa framið samningsbrot þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra hjá enska liðinu Liverpool. Aftur á móti hefur Benitez oftsinnis haldið því fram að undanförnu að hann eigi inni laun hjá Valencia. "Við höfum ákveðið að fara í mál við Benitez því hann uppfyllti ekki samning sinn við okkur," sagði forseti Valencia, Jaime Orti, í samtali við Spænska útvarpsstöð. Umboðsmaður Benitez, Manuel Garcia Quilon, vonast til að málið fari ekki alla leið í réttarsal: "Rafael Benitez er vel meðvitaður um kröfu Valencia en er einnig alveg sallarólegur. Hann er að vonast til þess að málið leysist farsællega fyrir báða aðila. Spænsk dagblöð sögðu frá því í vikunni að Valencia myndi fara fram á tvær milljónir punda í bætur frá hinum 44 ára gamla Benitez. Benitez segist hins vegar eiga inni rúmlega eina og hálfa milljón punda vegna vangoldinna launa og bónusa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×