Sport

Draumur Portúgala á lífi

Portúgalir eru komnir í úrslitaleik stórmóts í knattspyrnu í fyrsta sinn en í gærkvöld lögðu þeir Hollendinga að velli, 2-1, í bráðskemmtilegum undanúrslitaleik sem fram fór á José Alvalade leikvanginum í Lissabon. Portúgalir höfðu áður þrisvar sinnum komist í undanúrslit á stórmóti en aldrei alla leið í úrslit. Fyrst var það á HM 1966, svo á EM 1984 og 2000. Sigur Portúgala var sanngjarn í það heila og eftir seinna mark sitt voru þeir í raun klaufar að hleypa Hollendingum inn í hann. Það var Ronaldo sem kom Portúgölum á bragðið með laglegu skallamarki á 26. mínútu eftir hornspyrnu Deco. Marc Overmars var klaufi að jafna ekki metin tveimur mínútum síðar en þá skaut hann yfir úr galopnu færi. Fjörið hélt áfram og Pauleta lét verja frá sér úr dauðafæri og Luis Figo átti glæsilegt skot í stöng. Hollendingar máttu því góðir heita að vera aðeins einu marki undir þegar Sænski dómarinn Anders Frisk flautaði til leikhlés. Portúgalar héldu yfirhöndinni fram eftir síðari hálfleik og Pauleta fór herfilega að ráði sínu á 54. mínútu er hann komst aleinn innfyrir en skaut beint á Van der Sar, markvörð Hollendinga. Fjórum mínútum síðar skoraði Manische stórkostlegt mark með skoti rétt við vítateigshornið, stöngin inn, algjörlega óverjandi og staða Portúgala orðin góð. Hollendingar komust inn í leikinn aðeins fimm mínútum síðar en þá varð Portúgalinn Andrade fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Hollendingum gekk brösuglega að ná einhverri sóknarpressu að ráði það sem eftir lifði leiks og ef eitthvað var voru Portúgalir líklegri til að bæta við - skyndisóknir þeirra voru stórhættulegar og úrslitin því ekkert annað en sanngjörn. Luis Figo, fyrirliði Portúgala, átti erfitt með að tjá sig eftir sigurinn: "Það er erfitt að lýsa tilfinningunni í einu orði. Við höfum mátt þola mikið mótlæti á leið okkar í úrslitaleikinn í okkar eigin heimalandi og getum ekki óskað okkur meira en þetta. Við fengum tækifæri til að skora fleiri mörk og ég held að við getum verið mjög sáttir við frammistöðu okkar í dag," sagði Figo sem er líklega að spila á sínu síðasta stórmót. Hann bætti við: "Portúgal á frábæra leikmenn. Við eigum unga og efnilega leikmenn og getum átt frábært lið í komandi framtíð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×