Sport

Geolgau gafst upp hjá Fram

Rúmeninn Ion Geolgau fór fram á það í gær að vera leystur undan störfum sem þjálfari Fram í knattspyrnu. Það var bón sem stjórn rekstrarfélags meistaraflokks Fram var ekki í miklum vandræðum með að samþykkja. "Hann sá fram á það að hann kæmist ekki lengra með liðið og óskaði eftir því að fá að hætta. Við vorum sammála því og þar með var ekkert mál að ganga frá málunum og það var gert í mesta bróðerni," sagði Brynjar Jóhannesson, framkvæmdastjóri rekstrarfélags meistaraflokks Fram. Geolgau byrjaði vel með liðið í sumar. Þeir unnu góðan sigur á Víkingum í fyrstu umferð og léku vel. Nældu svo í stig í Eyjum í næsta leik en eftir það hafa þeir ekki fengið eitt einasta stig. "Það er ekki hægt að neita því að þetta hefur ekki verið boðlegt. Þetta er búið að vera alveg skelfilegt," sagði Brynjar. "Það er hlutverk þjálfarans að kveikja í leikmönnum og fá þá til að spila eins og hann vill en það hefur honum ekki tekist. Það er samt ekki hægt að skella allri skuldinni á þjálfarann því leikmenn verða einnig að líta í eigin barm. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirra framlagi sem hefur ekki verið mikið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×