Sport

Poborský með flestar stoðsendingar

Það er Tékkinn Karel Poborský sem hefur lagt upp flest mörk á Evrópumótinu í Portúgal til þessa en Poborský hefur átt alls fjórar stoðsendingar í fjórum leikjum Tékka í keppninni þar af tvær þeirra gegn Dönum í átta liða úrslitunum. Karel Poborský lagði þar upp mörk fyrir Jan Koeller og Milan Baros en hann lagði einnig upp mark fyrir Milan Baros gegn Lettum í fyrsta leiknum og sigurmarkið fyrir Vladimir Smicer gegn Hollandi í riðlakeppninni. Poborský lék aðeins í 20 mínútur í leiknum gegn Þjóðverjum á lokadegi riðlakeppninnar en það er eini leikurinn sem hann hefur ekki náð að leggja upp mark. Karel Poborský er einn þriggja leikmanna tékkneska liðsins sem voru með fyrir átta árum þegar liðið fór alla leið í úrslitaleik Evrópukeppninnar í Englandi þar sem liðið tapaði 1-2 fyrir Þjóðverjum. Poborský lagði upp tvö mörk í þeirra keppni og hefur því alls gefið sex stoðsendingar í lokaúrslitum Evrópukeppninnar sem er met. Hann var aðalstjarna tékkneska liðsins í þá daga en er í aðeins öðruvísi hlutverki nú þótt mikilvægi hans sé enn það sama. Tékkar eiga líka markahæsta mann keppninnar til þessa því Milan Baros hefur skorað fimm mörk í þessum fjórum leikjum og reyndar lagt upp eitt mark til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×