Sport

Fyrsta tap Fylkis

ÍBV vann óvæntan sigur á Fylki í Árbænum í kvöld en þetta var fyrsta tap Fylkis í Landsbankadeildinni í sumar. Sigurmarkið kom úr umdeildri vítaspyrnu á 60. mínútu. Það hafði lítið gerst í leiknum þegar Björgólfur Takefusa fiskaði aukaspyrnu á 19. mínútu. Hann tók spyrnuna sjálfur og skoraði glæsilegt mark án þess að Birkir Kristinsson kæmi nokkrum vörnum við. Aðeins sjö mínútum síðar lyfti Bjarnólfur Lárusson boltanum yfir Val Fannar Gíslason og á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem skoraði örugglega. Þetta var sjötta mark Gunnars Heiðars í deildinni en hann er markahæstur. Á 60. mínútu gerðist síðan umdeilt atvik. Gunnar Heiðar Þorvaldsson kemst einn inn fyrir vörn Fylkis en um leið og hann ætlar að setja boltann í netið tekur Valur Fannar af honum boltann með góðri tæklingu. Gylfi Orrason dómari mat það svo að Valur hefði farið fyrst í Gunnar og svo í boltann þannig að hann dæmdi vítaspyrnu og sendi Val Fannar í bað í leiðinni. Spyrnuna tók Bjarnólfur Lárusson og hann skoraði af miklu öryggi. Tíu leikmenn Fylkis höfðu lítið í ellefu Eyjamenn að gera og það var ÍBV sem fagnaði sigri í leikslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×