Skoðun

Einn ötulasti talsmaðurinn

Evrópusambandið - Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi. Fyrir nokkru síðan rakst ég á klausu á heimasíðu Evrópusamtakanna sem mér þótti allmerkileg. Klausan var þessi: "Einn ötulasti talsmaður Evrópu[sambands]sinna, Eiríkur Bergmann Einarsson, var þann 26. mars sl. í þættinum Nei ráðherra á Útvarpi Sögu". Það merkilega við umrædda klausu er auðvitað það að hér er um að ræða nákvæmlega sama manninn og reglulega tjáir sig í fjölmiðlaviðtölum um Evrópumál sem hlutlaus fræðimaður, nú síðast fyrir nokkrum dögum síðan. Hér er líka um að ræða nákvæmlega sama manninn og situr í aðalstjórn áðurnefndra Evrópusamtaka sem hafa það að markmiði sínu að Ísland gangi í Evrópusambandið. Maður spyr sig því óhjákvæmilega að því hvernig annars ágætur einstaklingur eins og Eiríkur Bergmann geti tjáð sig um málefni tengd Evrópusambandinu á hlutlausan hátt sem fræðimaður á sama tíma og hann er virkur þátttakandi í þeirri pólitísku umræðu sem um málefnið er? Það er einfaldlega ekki hægt að gera þá ósanngjörnu kröfu til Eiríks, eða hvaða aðila annars í sömu stöðu, að hann tjái sig hlutlaust um þessi mál. Ég á a.m.k. afskaplega erfitt með að sjá Eirík fyrir mér koma afstöðu pólitískra andstæðinga sinna í þessum málum á framfæri - a.m.k. ekki til jafns við sín eigin sjónarmið. Það verður einfaldlega seint trúverðugt að stjórnmálamönnum sé stillt upp í fjölmiðlum sem hlutlausum stjórnmálaskýrendum. Slíkt gengur eðlilega ekki upp. Yrði t.a.m. almennt tekið mikið mark á því ef lögfræðingurinn Davíð Oddsson kæmi fram í fjölmiðlum og tjáði sig um Evrópumálin á þeim forsendum að hann væri hlutlaus fræðimaður? Eða ef sagnfræðingurinn Ögmundur Jónasson gerði slíkt hið sama? Sennilega yrði ekki of mikið um það. En engu að síður þykir sumum fjölmiðlum hér á landi greinilega ekkert eðlilegra en að stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson, sem er á kafi í pólitískri umræðu um Evrópusambandið, sé kallaður í viðtal sem hlutlaus umsagnaraðili um þau mál. Sennilega sjá flestir hversu einkennilegt þetta fyrirkomulag er. Varla er slíkur hörgull á fræðimönnum hér á landi á sviði Evrópumála að nánast sé ekki hægt að leita til annarra stjórnmálaskýrenda en aðila sem eru virkir talsmenn ákveðinna pólitískra sjónarmiða í umræðum um Evrópusambandið? Ég vil hvetja íslenzka fjölmiðlamenn til að taka sér þetta til umhugsunar. Að staðið sé að málum með þessum hætti getur varla talizt í samræmi við þau faglegu vinnubrögð sem þeir vilja án efa vera þekktir fyrir.



Skoðun

Sjá meira


×