Skoðun

Ný orðræða

Stjórnmálaumræður - Kjartan Jónsson.

Að undanskildum stórviðburði þessa vors, þegar forseti neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin, hefur fátt merkilegt gerst í umræðu dægurstjórnmálanna undanfarið ár. Sama stefið endurtekið með lítið breyttum tilbrigðum og fær varla stórt pláss hjá sagnfræðingum framtíðarinnar. Þó hafa heyrst örfáar raddir sem hafa fengið mig til að sperra eyrun, en það er helst þegar minnst hefur verið á nýja orðræðu í stjórnmálum.

Þar var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri grænna, framarlega í flokki og kom tal hennar um hina nýja orðræðu m.a. við kaunin á Eiríki Bergmann sem sendi henni tóninn í Fréttablaðinu. Nú er undirritaður einn af þeim sem þykist skynja þörf á nýrri orðræðu og langar til þess að leggja sitt af mörkum. Mér finnst líka að í stað þess að tala um nýja orðræðu þá sé mál að fara að setja eitthvað í orðræðubelginn.

Rýr áhrifamáttur

Varðandi gagnrýni Eiríks Bergmann á að Katrín skyldi leggja meiri áherslu á hina nýju orðræðu en ýmis önnur knýjandi mál vinstrimanna, s.s. stöðu launamanna og önnur brýn mál, þá er það mín skoðun, og má styðja þá skoðun með ýmis konar tölfræði, að án nýrrar orðræðu, án nýrra aðferða og nýrrar pólitískrar sýnar sé staða launafólks og almennings, staða varnarbaráttu án nokkurrar möguleika til sóknar, þar sem sívaxandi gjá myndast á milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki, þeirra sem ráða og þeirra sem ráða ekki.

Þar sem samanlagt verðmæti launaumslaga okkar skreppur saman í samhengi við afkomutölur stórfyrirtækjanna. Þar sem lýðræðisleg áhrif okkar í gegnum hefðbundinn atkvæðisrétt rýrna í samhengi við aukin áhrif fjármagns og stofnana og hversu hróplega rýr okkar lýðræðislegu áhrif eru miðað við þá möguleika sem til staðar eru í þjóðfélaginu í dag.

Upplýstur almenningur

Í stuttu máli, án nýrrar orðræðu er bara um varnarbaráttu að ræða, í besta falli hægfara undanhald þangað sem þjóðfélagið og heimurinn allur er tvískiptur, þar sem óbrúanlega gjá verður á milli mjög auðugs minnihluta og meirihluta sem hefur það í besta falli skítsæmilegt.

Hvað á svo heima í hinum nýja orðræðubelg? Í vetur tók Björgvin Sigurðsson frumkvæði á þingi í umræðu um beint lýðræði, en þróun lýðræðis hlýtur að vera eitt af stóru málum framtíðarinnar; hvernig getum við aukið lýðræðisleg áhrif almennings í samræmi við þá tæknilegu möguleika sem eru til staðar í dag. Hvernig getum við komið til móts við þá staðreynd að í dag er almenningur mun betur upplýstur og hefur betri aðgang að upplýsingum um flest mál en fólk hafði á þeim dögum sem núverandi fyrirkomulagi var sett á fót.

Hvernig getum við gert fólki kleift að grípa inn í og koma í veg fyrir að stjórnvöld þjösnist í gegn með mál eins og stuðning við árásina á Írak gegn vilja langflestra landsmanna? Umræður um málskotsrétt forseta hafa vakið upp umræðuna um beint lýðræði, en vitaskuld hlýtur markmiðið að vera að almenningur geti sjálft knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu á eigin forsendum.

Barnapólitík

Síðan eru önnur mál sem ekki virðast snerta nein grundvallaratriði, mál eins og tekjutenging á ýmsum sviðum, en þegar nánar er að gáð má finna, í djúpgerð þeirrar umræðu, ákveðnar grundvallarforsendur sem tekist er á um. Þar er um að ræða það sem kalla mætti fjölskylduformgerð annars vegar og mannréttindaformgerð á hinn bóginn. Þetta birtist t.d. í umræðunni um tekjutengingu örorkubóta síðastliðinn vetur. Ég man eftir sjónvarpsþætti þar sem Pétur Blöndal deildi við Helga Hjörvar um tekjutengingu örorkubóta.

Pétur var þar í hlutverki verjanda hinnar gömlu fjölskylduformgerðar en Helgi lagði áherslu á mannréttindi hvers einstaklings. Fjölskylduformgerðin tilheyrir þeim tíma þar sem fjölskyldan var órjúfanleg eining, með verkaskiptingu sem gerði það að verkum að einstaklingarnir innan fjölskyldunnar voru algerlega háðir hverjum öðrum. Í þeirri stöðu félagslegs og fjárhagslegs sjálfstæðis karla og kvenna dagsins í dag þvælist gamla kerfið fyrir. Það felur í sér að fólki er mismunað eftir lífsstíl og því er komið í þá aðstöðu að verða upp á náð og miskunn ættingja og maka sinna komið. Í stað fjölskyldupólitíkur mætti t.d. tala um barnapólitík, því það er í tengslum við börn sem ríkisvaldið á að koma til móts við fólk, ekki vegna lífsstíls þess.

Fagor-heimilistæki

Það fer lítið fyrir umræðu um nýja valkosti í rekstrarformum fyrirtækja. Samvinnuformið er talið úrelt og önnur "alternatív" rekstrarform álitin vera eingöngu jaðarfyrirbæri, ófær um að taka þátt í alvöruslagnum. Það er full ástæða til að leiðrétta þennan misskilning. Eitt það merkilegasta sem er að gerast á þessu sviði í dag er keðja samvinnufyrirtækja sem kennd eru við bæinn Mondragon á norður Spáni. Rekja má sögu þessara fyrirtækja, sem eru á annað hundrað talsins, aftur til loka borgarastríðsins á Spáni. Á síðasta ári veltu þau nærri því 10 milljörðum evra, sem var 17,5% aukning frá árinu á undan.

Margir þekkja Fagor-heimilistæki, en þau hafa verið seld hér á Íslandi í mörg ár og eru framleidd af einu þessara fyrirtækja. Það er margt merkilegt við þessi fyrirtæki, en þau eru í eigu starfsmannanna sem vinna í þeim. Rekstrarleg úttekt, sem breska sjónvarpsstöðin BBC gerði, leiddi í ljós að þessi fyrirtæki hafa ýmislegt sem gefur þeim umtalsvert samkeppnislegt forskot á einkafyrirtæki í hefðbundnu hlutafélagaformi. Það byggist helst á lítilli yfirbyggingu og miklum sveigjanleika sem þessi fyrirtæki hafa. Þeir sem vilja afla sér meiri upplýsinga um þessi fyrirtæki geta fundið þær á vefsíðunni mcc.es.

Húmanísk orðræða

Bandaríski málfræðingurinn Noam Chomsky hefur sagt að skapa þyrfti mannlegt samfélag út frá eðli manneskjunnar og það ætti að vera leiðarljós í pólitískri baráttu. Nú er ég ekki viss um að við myndum komast að nákvæmlega sömu niðurstöðu um hvað sé mannlegt eðli, en ég held að það sé rétt leið að færa orðræðuna inn á það svið og reyna að fikra okkur þaðan. Rauði þráðurinn í hinni nýju orðræðu hlýtur að vera húmanískur þráður, hann byggist á því að skilgreina manneskjuna og hanna samfélagið út frá því.

Það er kannski skiljanlegt að stjórnmálamenn sem hafa menntun eins og stjórnmálafræði eða lögfræði hafi tilhneigingu til að reyna að komast áfram með því að horfa eingöngu í baksýnisspegilinn, stjórnmálafræðingar horfa á form og hugmyndir horfinnar aldar og lögfræðingar leita að fordæmum. Vandinn er bara sá að þetta þjóðfélag, þessi heimur sem við í dag búum í, er heimur ólíkur nokkrum öðrum sem hefur verið til. Og hann kallar á nýja orðræðu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.