Skoðun

Frá degi til dags

Neikvæðar auglýsingar Einhverjum eru það væntanlega vonbrigði að ekki skyldu fleiri skila auðu í forsetakosningunum á laugardaginn eftir allt sem á undan er gengið. "Ég yrði ekki hissa þó helmingur myndi skila auðu," sagði fótgönguliði ákveðins stjórnmálaflokks nokkru fyrir kosningar. Sá mæti maður var raunar einn af þeim sem fagnaði neikvæðum auglýsingum gegn Ólafi Ragnari Grímssyni árið 1996. Þær komu þó raunar í bakið á þeim sem þær settu fram því fólki ofbauð ofstækið og snerist frekar á sveif með Ólafi en gegn honum. Ekki er ólíklegt að öflugur áróður um að skila auðu hafi haft svipuð áhrif. Þeirri skoðun var til dæmis haldið fram, í aðdraganda kosninganna, í heitum potti sundlaugar í Reykjavík, að búið væri að eyðileggja fyrir fólki auðu atkvæðin. Sagt var fyrirséð væri að þau yrðu túlkuð sem andstaða við málskotsrétt þjóðarinnar og þeim sem þannig kysu gerðar upp alls konar skoðanir. Þá var nú sagt betra að kjósa sitjandi forseta, í kosningum sem raunar hefðu átt að vera óþarfar til að byrja með, svona fyrst Ólafur vildi halda áfram og ekki fékkst frambærilegra fólk á móti honum. Árni í Malaví Árni Magnússon, félagsmálaráðherra vor, hélt um síðustu helgi til Malaví, m.a. til viðræðna við félagsmálaráðherrann þar um nánara samstarf á sviði félagsmála. Samstarfið er einkum sagt varða velferð barna og fjölskyldna, en í tilkynningu ráðuneytisins hér heima kom ekki fram hvort Árni hefði í farteskinu ráðleggingar um hvernig mætti spara sér útgjöld á þessu sviði. Ólíklegt er þó talið að hann muni ráðleggja Malavíráðherranum að draga fyrstu greiðslur til atvinnulausra, enda tæpast um miklar greiðslur til þeirra að ræða til að byrja með þarna ytra, þar sem yfir helmingur þjóðarinnar er undir fátækramörkum.



Skoðun

Sjá meira


×