Sport

Völler styður Hitzfeld

Rudi Völler, fyrrum landsliðsþjálfari Þjóðverja, vill að Ottmar Hitzfeld, fyrrum þjálfari Bayern Munchen, taki við þýska landsliðinu. "Það er ekki mitt að velja næsta landsliðsþjálfara en ég vil gjarna sjá Hitzfeld taka við starfinu," sagði Völler við þýska blaðamenn. "Ástæðan er að hann hefur mikla reynslu, hefur náð góðum árangri og er mikill heiðursmaður. Ottmar yrði frábær landsliðsþjálfari og það besta er að hann er á lausu." Hitzfeld hætti með Bayern eftir síðasta tímabil og ætlaði að taka sér frí frá knattspyrnu í bili til þess að sinna fjölskyldunni. Hann gæti þurft að geyma þær fyrirætlanir aðeins ef það kemur símtal frá þýska knattspyrnusambandinu því fram undan er mjög spennandi verkefni að stýra þýska landsliðinu á HM 2006 sem fram fer í Þýskalandi. Ef Hitzfeld vill ekki taka við starfinu er talið líklegt að rætt verði við Cristoph Daum, fyrrum þjálfara Bayer Leverkusen, og Otto Rehhagel sem er að gera frábæra hluti með gríska landsliðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×