Skoðun

Frá degi til dags

Björn bróðir Á þingi Sambands ungra framsóknarmanna í gær var samþykkt sérstakt samkomulag milli tveggja fylkinga innan sambandsins sem kveður á um helmingaskipti á kjörtímabili stjórnarinnar. Núverandi formaður, Haukur Logi Karlsson, hefur gagnrýnt forystu flokksins mjög harkalega að undanförnu, einkum í tengslum við fjölmiðlamálið. Samkvæmt samkomulaginu mun Haukur Logi víkja úr formannsstóli þegar kjörtímabil stjórnarinnar er hálfnað og í hans stað kemur Jakob Hrafnsson. Sá síðarnefndi er bróðir Björns Inga Hrafnssonar, aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra. Heimildir herma að hátt settir menn í flokknum hafi beitt sér mjög fyrir því að Haukur viki sem formaður en viljað um leið forðast átök innan ungliðahreyfingarinnar. Flestum þykir ljóst að ungliðahreyfing Framsóknarflokksins verður flokksforystunni ekki eins óþægur ljár í þúfu eftir að bróðir aðstoðarmanns flokksformannsins er kominn þar í forystu. Jakob hefur klifið hratt upp metorðastiga flokksins en þó ekki eins hratt og Björn bróðir, því sá síðarnefndi var orðinn hægri hönd formannsins örfáum mánuðum eftir að hann gekk í Framsóknarflokkinn. Þórólfur betri en Ingibjörg Þórólfur Árnason hefur nú gegnt starfi borgarstjóra í um það bil eitt og hálft ár. Eins og gengur eru skiptar skoðanir um störf hans og eðlilega eru þau iðulega borin saman við störf Ingibjargar Sólrúnar Gísldóttur sem var borgarstjóri frá 1994 til ársloka 2002. Á einu sviði er árangur Þórólfs óumdeilanlega betri en það er í laxveiðinni. Hefð er fyrir því að laxveiði í Elliðaánum hefjist á því að borgarstjóri veiði fyrsta laxinn. Ingibjörg Sólrún þótti með eindæmum mikil fiskifæla og gekk illa mestallan sinn feril. Gárungarnir höfðu þá á orði að laxarnir í ánni vissu greinilega hver hefði völdin í borginni því iðulega fékk framsóknarmaðurinn Alfreð Þorsteinsson fyrsta laxinn. Þórólfur er hins vegar mun fisknari en Ingibjörg og þegar Elliðaáin var opnuð á dögunum fékk hann fyrsta laxinn, 4ra punda hrygnu.



Skoðun

Sjá meira


×