Sport

Tyson fer sjálfur út með ruslið

Yngsti hnefaleikameistari sögunnar, Mike Tyson, sem hefur unnið sér inn 250 milljónir dollara á ferlinum, er á hausnum, býr einn í þriggja herbergja íbúð og þarf sjálfur að fara út með ruslið. Tyson hefur eytt öllum sínum peningum í vitleysu og svo hafa þeir sem unnu í kringum hann rænt stórum skerf af þeim peningum sem hann vann sér inn. Svo kom skatturinn í bakið á honum og setti hann endanlega á kúpuna. Fyrir vikið hefur Tyson þurft að selja stóra húsið sitt, sagt upp 40 manna fylgdarliði og selt alla 28 bílana sína. Hann býr núna einn í þriggja herbergja íbúð sem kostar í kringum 55 þúsund dollara eða um fjórar milljónir króna. "Ég átti ekki alla þessa peninga á sama tíma en ég var kærulaus með fólkið í kringum mig og það varð mér að falli," sagði Tyson. "Ég hefði getað fengið meiri pening en ég vil ekki segja það því þá liti ég út fyrir að vera enn meira fífl. Nú bý ég einn í lítilli íbúð og er mjög hamingjusamur með það. Skatturinn gerði það að verkum að ég varð að gera breytingar. Það er mikil breyting frá því að hafa þjóna á hverju strái til þess að þurfa að fara sjálfur út með ruslið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×