Skoðun

Frá degi til dags

Engin kosningavaka í sjónvarpi Ljóst má vera að fáir búast við spennandi talningu þegar talið verður upp úr kjörkössunum í kvöld. Til marks um það er að ekki er gert ráð fyrir kosningavökum í dagskrá Sjónvarpsins eða dagskrá Stöðvar 2. Sjónvarpið er þó með beina útsendingu frá lokaumræðum frambjóðenda klukkan níu, en ekki virðist gert ráð fyrir öðru efni. Fólk sem lítur í flýti á dagskrá kvöldsins gæti þó talið að þátturinn Spurt að leikslokum væri tengdur forsetakosningunum, en svo er ekki því þar verður sjónvarpsmaðurinn góðkunni Þorsteinn J. Vilhjálmsson með spjall og samantekt úr leikjum dagsins á EM í fótbolta. Ekki er þó vonlaust að greint verði frá niðurstöðum forsetakosninganna í dagskrárlok í Sjónvarpinu, en klukkan rétt rúmlega tvö verða fluttar fréttir Útvarps. Neðanbeltisbarnaefni Teiknimyndasögur Morgunblaðsins voru teknar til endurskoðunar ekki alls fyrir löngu. Blað gærdagsins bar þess glögglega vitni hversu mikil breytingin er í raun, með neðanbeltishúmor sem einhver kynni að kalla grófan. Hljóta það að teljast nýmæli að blaðið beri slíkt á borð innan um barnaefni. Söguhetjur svissnesku teiknimyndasögunnar um Titt (íslenskun blaðsins á Titeuf), tveir stráklingar, sjá falskar tennur ömmu annars þeirra í glasi á náttborði. Fjörugt ímyndunaraflið verður til þess að þeir telja þarna kominn mannætufisk og þeir sleppa honum í ánna. Þeir koma hróðugir heim til ömunnar sem bíður tannlaus og annar segir hróðugur: "Það verður ekki bitið í tippið á afa." Tengingin er óljós. Annað hvort er verið að ýja að nánu samlífi eldri borgara, eða þá því að gamli maðurinn sé líklegur til að dýfa typpinu í glasið. Annars má þess geta að Titeuf er mjög vinsæll í heimalandi sínu. Til marks um það er að í Sviss er hægt að fá frímerki með skondnum teikningum af uppátækjum kappans.



Skoðun

Sjá meira


×