Sport

Beckham áfram fyrirliði

David Beckham, fyrirliði Englendinga, var reiður á blaðamannafundi daginn eftir tapleikinn gegn Portúgölum þegar leiðtogahlutverk hans var dregið í efa. "Haldið þið að ég geti veitt liðinu innblástur eins og ég gat áður? Hvað haldið þið? Hlustið, ég er fyrirliði Englands og ég mun ekki segja upp þeirri stöðu, ég er stoltur af því að tilheyra þessu liði og stoltur af því að vera fyrirliði Englands," sagði reiður Beckham og var ekki hættur: "Ef fólk efast um mig, þá það, en ég er fyrirliði Englands og segi ekki af mér fyrr en einhver vill það og sá einhver er þjálfari Englands." Beckham bauð ekki upp á neinar afsakanir vegna tapsins gegn Portúgal en sagði liðið fyrst og fremst skorta heppni til að geta hampað stórum titli. Hann var harður á því að Englendingar myndu jafna sig fljótt og sagði næsta verkefni vera það að tryggja liðinu sæti á HM í Þýskalandi eftir tvö ár: "Ég hef sagt það áður og segi það enn, þetta lið getur komist langt. Næsta heimsmeistarakeppni gæti orðið síðasta stórmótið hjá mér með landsliðinu og nú verðum við einfaldlega að horfa jákvæðir fram á veginn," sagði David Beckham.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×