Skoðun

Opið bréf frá landinu helga

Umræðan - George Rishmawi Til Ástþórs Magnússonar Fyrir hönd Hjálparstofnunar landsins helga í Betlehem erum við innilega þakklát áralangri baráttu þinni fyrir friði og mannréttindum meðal þjóða. Við höfum lengi beðið eftir fólki eins og þér til að tala fyrir málstað okkar og þjáningum og leggja okkur lið í baráttunni fyrir réttlæti. Lengi hafa þjáningar okkar undir hernámi Ísraela verið hundsaðar af alþjóðasamfélaginu. Nú finnum við sterka rödd sem mun standa upp í baráttunni fyrir réttlæti og varanlegum friði, verðir þú kjörinn forseti. Héðan frá Palestínu, frá hernáminu, frá Betlehem, skorum við á fólk að hjálpa þér, hr. Ástþór Magnússon. Skorum á það að hjálpa þér að halda áfram að boða frið, ekki einungis með orðum heldur einnig í verki. Langt starf þitt fyrir friði og gegn ofbeldi og barátta þín fyrir betri framtíð mannkyns ætti að gera þjóð þína stolta af þér. Í Palestínu erum við stolt af þér, Ástþór Magnússon, stolt af samstarfi okkar og stolt af mannúð þinni sem við söknum hjá leiðtogum heims. Land á borð við Ísland hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að styðja frið og réttlæti og byggja friðarbrýr milli þjóða. Öll munum við eftir því þegar forsetar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna mættust á Íslandi undir lok kalda stríðsins. Frá þeim tíma hefur fólk um allan heim litið til Íslands í von um aukin framlög til heimsfriðar. Hættuástandið í Mið-Austurlöndum þarfnast svo sannarlega liðsinnis ykkar Íslendinga sem þjóðar. Palestínumenn og Ísraelar þurfa átakanlega á hjálp ykkar að halda og nú er rétti tíminn fyrir land eins og Ísland að leggja hönd á plóginn og valda straumhvörfum til friðar, ekki aðeins í Mið-Austurlöndum heldur um allan heim. Ástþór Magnússon, barátta þín fyrir friði hefur nú þegar breytt lífi margra og þegar þú verður kosinn forseti erum við þess fullviss að þú munt halda áfram á þeirri braut. Við óskum þér góðs gengis í forsetakosningum á Íslandi. Megi friður ríkja á jörð. Greinarhöfundur er umsjónarmaður hjá Holy Land Trust, Betlehem, Palestínu (www.holylandtrust.org) og skrifar í nafni samtakanna.



Skoðun

Sjá meira


×