Skoðun

Frá degi til dags

Peningapólitík ríkis og skóla Í fyrstu grein reglugerðar um framhaldsskóla (98/2000) kemur fram að þeim sé skylt að sjá útskriftarnemendum grunnskólanna fyrir skólavist. Þar segir: "Allir þeir sem lokið hafa námi í grunnskóla eða öðru jafngildu námi skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla." Vitað hefur verið í nokkurn tíma að í óefni stefndi. Í grunnskólunum hefur heyrst af því að námsráðgjafar hafi reynt að róa áhyggjufull börnin og foreldra þeirra með því að þarna væri bara um að ræða baráttu framhaldsskólanna fyrir auknum fjárframlögum og að þótt útlitið væri svart myndu mál leysast að lokum, því þetta væri samkomulagsatriði ríkis og skóla. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lét enda væl forsvarsmanna framhaldsskóla ekki hafa áhrif á sig og kom með þann mótleik að bregða sér bara í frí til sólarlanda. Kannski að þetta sé samt blekkingaleikur á borð við það þegar útilegumenn á heljarþröm henda kjötlæri úr helli sínum til að blekkja umsátursmenn sína. Þeim hundruðum grunnskólanema sem óttast um að fá ekki skólavist í framhaldsskóla næsta vetur er tæplega skemmt yfir peningapólitískum leik skóla og ríkis. Orustur eða orrustur Á tímum átaka í þjóðfélaginu verður mörgum heitt í hamsi og geysast út á ritvöllinn, bæði á prenti og svo ekki síður á netinu. Leitarvélin Google finnur til dæmis tæplega rúmar 700 færslur með leitarorðinu "stjórnmál" í tengslum við orðin "átök" eða "rimma." Færri virðast þó fjalla um orrustur, en kannski er það af því í hve miklum vafa pennar netsins eru varðandi rithátt orðsins. 364 skrifa "orrusta" meðan 351 skrifar "orusta." Fólk ætti þó ekki að þurfa að láta það aftra sér því hvort tveggja er rétt.



Skoðun

Sjá meira


×