Skoðun

Frá degi til dags

Til ábyrgðarstarfa fyrir málstaðinn Lögmannsstofan Nestor er merkileg fyrir margra hluta sakir, ekki síst fyrir mannvalið. Fremstur fer þar í flokki lögmaðurinn góðkunni Jón Steinar Gunnlaugsson, einkavinur forsætisráðherra og ötull málsvari, nú síðast á síðum Morgunblaðsins þar sem hann segir dóm þann sem ráðherrann fékk á orð sín í raun vera sigur. Karl Axelsson er annar lögmaður stofunnar, en hann er formaður nefndar hinna vísu manna sem undirbúa eiga lagasetningu um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Heimir Örn Herbertsson er einnig þarna innan dyra, en hann er lögmaðurinn sem kærði undirskriftasöfnun gegn fjölmiðlafrumvarpinu til Persónuverndar. Þá má líka nefna Eirík Elís Þorláksson, sem síðast vann sér það til frægðar að verja Davíð Oddsson forsætisráðherra í fyrrnefndu meiðyrðamáli Jóns Ólafssonar gegn honum, þannig að "fullnaðarsigur vannst" þrátt fyrir dóminn. Ritun sögunnar Leiðarahöfundur Morgunblaðsins velti á þjóðhátíðardaginn fyrir sér hrakandi þekkingu og áhugaleysi yngri kynslóðarinnar á sögu þjóðarinnar. "Erfitt er að skilja það áhugaleysi og það þekkingarleysi. Saga íslenzku þjóðarinnar í meira en þúsund ár er merkileg saga," segir leiðarahöfundur.  Ekki skal á móti því mælt að saga þjóðarinnar sé allrar athygli verð, en spurningin vaknar þó hvernig Morgunblaðið dregur ályktun sína um áhuga yngra fólksins. Kannski að blaðið dragi álykti sem svo af samdrætti í lestri vissra aldurshópa að þeir verði þá af sagnfræðiuppfræðslu blaðsins og séu því fávísari en ella. Ungt fólk er þó tæpast í vandræðum með að finna upplýsingar um sögu lands og þjóðar. Þar sem uppfræðslu skólakerfisins sleppir taka væntanlega bókasöfn og uppflettirit við, að ekki sé minnst á þann hafsjó fróðleiks sem finna má á netinu.



Skoðun

Sjá meira


×